Geta átt von á lykt og reyk í þrjá daga

Kísilver PCC er á iðnaðarsvæðinu á Bakka, um 2,5 km …
Kísilver PCC er á iðnaðarsvæðinu á Bakka, um 2,5 km frá Húsavík. 500 menn vinna nú við lokafrágang. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Húsvíkingar geta hugsanlega fundið lykt og séð reyk stíga úr neyðarstrompi kísilvers PCC BakkaSilicon ehf. á iðnaðarsvæðinu á Bakka í um þrjá sólarhringa eftir miðjan janúar. Þá verða ljósbogaofnar verksmiðjunnar hitaðir upp með brennslu timburs.

Áhrifin á Húsavík geta þó farið eftir veðri og vindátt og lofar forstjóri PCC að líta til veðurspár áður en þetta ferli hefst.

Kísilverið er í um 2,5 kílómetra fjarlægð frá byggðinni á Húsavík og er Húsavíkurhöfði á milli. „Vonir okkar standa til þess að íbúarnir finni ekki fyrir neinu. Verksmiðjan er ekki í sjónlínu frá bænum og við eigum ekki von á að lyktin verði það sterk að hún berist mikið út fyrir athafnasvæði verksmiðjunnar. En það fer eftir vindátt og veðri. Við munum skoða veðurspána,“ segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri kísilversins.

Allt að verða tilbúið

Nú er unnið á fullu við lokafrágang verksmiðjunnar. Yfir 500 manns starfa við það.

Þeistareykjavirkjun verður gangsett í dag og raflínur, tengivirki og spennistöðvar Landnets eru tilbúnar. Er því unnt að hefja afhendingu á raforku til kísilversins. Vinnudagsetning PCC fyrir gangsetningu verksmiðjunnar hefur verið 13. desember. Hafsteinn segir að verksmiðjan verði ekki gangsett fyrr en hún verður alveg tilbúin og nú sé útlit fyrir að það verði seinnihluta janúarmánaðar.

Fram til gangsetningardags er unnið að svokölluðum kaldprófunum. Þá er farið yfir allan búnað og gengið úr skugga um að hann sé tilbúinn til framleiðslu.

Gangsetning hefst með svokallaðri heitræsingu. Í upphafi eru fóðringarnar í ofninum þurrkaðar með því að brenna timri í ofninum. Í kjölfarið er rafmagni hleypt á ofninn og það tekur við upphituninni. Þetta ferli getur tekið um 3 sólarhringa og á þeim tíma er ekki hægt að nota reykhreinsivirki versins til að draga úr mengun. Má því búast við reyk úr neyðarreykháfi verksmiðjunnar og lykt. Hafsteinn segir að eingöngu verði brennt hreinu timbri. Þó má einnig búast við að ýmis efni úr ofninum leysist upp og blandist viðarbrennslulyktinni.

Þegar þessu ferli er lokið er reykhreinsivirkið gert virkt og það á að hreinsa 99,9% ryks í útblæstri frá ljósbogaofnunum. Fyrstu afurðirnar koma út úr ofnunum um það bil viku síðar.

Öðruvísi en í Helguvík

Mikil vandamál hafa verið í rekstri kísilvers United Silicon í Helguvík, meðal annars vegna lyktarmengunar, og að lokum var verinu lokað tímabundið. Hafsteinn er viss um að lenda ekki í slíkum vandræðum.

Hann segir að verksmiðjan sé í grundvallaratriðum frábrugðin verksmiðjunni í Helguvík. Hann nefnir fyrst að ákveðið hafi verið að hafa tvo ljósbogaofna í stað eins stórs eins og er í Helguvík. Ofnarnir eru að mati PCC af þeirri stærð sem reynst hefur best. Þekkt sé í þessum iðnaði að eftir því sem ofnarnir eru stærri þeim mun erfiðara sé að hafa stjórn á hitanum og reksturinn verði óstöðugri.

Einnig er notuð önnur rafskautatækni. PCC kaupir rafskautin tilbúin og bakar þau áfram í rafmagnsofnum þannig að þau breytast í grafít. Þessi tækni varð fyrir valinu þar sem hún gefur bestu niðurstöðu í rekstri, dregur úr orkunotkun og hefur minnstu umhverfisáhrifin. Til dæmis lágmarkar hún losun efna sem valda lykt við gangsetningu. Í Helguvík er notuð eldri og ódýrari tækni. Hráefnum í rafskautin í mokað í málmhólka sem bakast í ofnunum og verða þar að skautum.

Í kísilveri PCC á Bakka verða tveir minni ofnar í …
Í kísilveri PCC á Bakka verða tveir minni ofnar í stað eins líkt og er í verinu í Helguvík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þriðja atriðið er reykháfur sem hægt er að nota í neyðartilvikum og tryggir að rykið fer hærra og dreifist meira.

Lyktarákvæði í starfsleyfi

Hafsteinn segir einnig að það auki öryggi verksmiðjunnar að öll hönnun og tækni komi frá sama fyrirtækinu, þýska félaginu SMS, sem hafi langa reynslu af slíkum verkefnum. SMS sér um alla verkþætti við byggingu verksmiðjunnar og ber jafnframt ábyrgð á að rekstur ofna hennar verði í samræmi við starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun hefur lagt mikla vinnu í undirbúning starfsleyfis fyrir kísilver PCC en leyfið var nýlega gefið út. Einar Halldórsson, verkfræðingur hjá Umhverfisstofnun, telur að meiri vinna hafi verið lögð í þetta starfsleyfi en nokkurt annað hér á landi.

Reynslan úr Helguvík hefur nýst við þessa vinnu. Einar segir að sett hafi verið nýtt skilyrði í starfsleyfið, svokallað lyktarákvæði. Hægt sé að skrá strax frávik frá starfsleyfi ef lykt finnst frá verksmiðjunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert