Vill að flugfreyjur og -þjónar standi saman

Fundur FFÍ með félagsmönnum WOW air sem haldinn var í …
Fundur FFÍ með félagsmönnum WOW air sem haldinn var í gær var fjölmennur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er von mín að flugfreyjur og flugþjónar á Íslandi standi saman í einu stéttarfélagi. Það skiptir meira máli núna en nokkru sinni fyrr að við stöndum saman vörð um hagsmuni okkar allra. Það er engum til hagsbóta nema vinnuveitendum ef við höldum í sitt hvora áttina,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands.

Flug­freyj­ur og -þjón­ar hjá WOW air hafa gagnrýnt stjórn FFÍ og segja mál­efni sín hafa lítið vægi inn­an félagsins en þau hafa verið með lausan kjarasamning frá sept­em­ber 2016. Í upphafi vikunnar ákváðu flug­freyj­ur og -þjón­ar hjá WOW air að stofna nýtt stétt­ar­fé­lag starfs­fólks í flugiðnaði vegna óánægju með málefni sín innan FFÍ.

Í gærkvöldi hélt FFÍ fund með félagsmönnum WOW air. Á þeim fundi voru tvær ályktanir samþykktar annars vegar að formaður FFÍ og fulltrúi WOW air skrifi undir kjarasamning flugliða WOW air og hann verði sendur til atkvæðagreiðslu félagsmanna.

Félagsmenn WOW air hafa haldið því fram að Berglind hafi neitað að skrifa undir kjarasamning þeirra fyrir hönd félagsins.

Berglind tekur fram að strax í dag hafi FFÍ óskað eftir að fá fund með fulltrúa WOW air sem myndi undirrita kjarasamninginn. „Við vonuðumst til að það hefði verið hægt í dag en höfum óskað eftir fundi strax á mánudagsmorgun svo félagsmenn geti greitt atkvæði um kjarasamninginn sem fyrst.“

Hin ályktun fundarins sneri að því að skoða möguleika á að deildarskipta Flugfreyjufélaginu í minni einingar sem myndu starfa sjálfstætt fyrir hvern viðsemjenda. Spurð hvort flug­freyj­ur og -þjón­ar hjá WOW air hafi horfið frá því að stofna nýtt stétt­ar­fé­lag starfs­fólks í flugiðnaði, segist Berglind ekki vita hvernig málið er standi. 

Næstu skref, eftir að kjarasamningurinn verður undirritaður og hann lagður fyrir félagsmenn, verður að halda fund með öllum félagsmönnum og fara meðal annars yfir ályktanirnar sem voru samþykktar í gærkvöldi.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert