Tólf fluttir á sjúkrahús

Rútuslys varð á sjötta tímanum við Lýsuhól á Snæfellsnesi.
Rútuslys varð á sjötta tímanum við Lýsuhól á Snæfellsnesi. mbl.is/Alfons Finnsson

Alls voru 12 fluttir á sjúkrahús eftir rútuslys við Lýsuhól á Snæfellsnesi á sjötta tímanum í dag. Andri Heide, yfirlæknir í Ólafsvík, sem var fyrstur á vettvang, segir aðstæður hafa verið hryllilegar. Svo slæmar að einn sjúkrabílanna með reyndan bílstjóra hafi fokið af veginum.

Alls voru 20 manns í rútunni, allt erlendir ferðamenn fyrir utan ökumanninn sem var Íslendingur. Fjórir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítala í Fossvogi og átta með sjúkrabílum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

„Það var enginn lífshættulega slasaður en fólk var lemstrað og lerkað og í sjokki fyrst og fremst,“ segir Andri. „Það var grunur um aðeins meiri áverka hjá þeim sem voru sendir með þyrlunni en hjá þeim sem fóru á Akranes,“ segir hann.

„Allar bjargir voru komnar á staðinn tiltölulega hratt og þetta fór betur en á horfðist. Við fórum strax af stað og virkjuðum í kjölfarið hópslysaáætlun,“ segir Andri. Sex sjúkrabílar tóku þátt í aðgerðum, tveir bílar frá lögreglu, fimm frá björgunarsveitum, tækjabíll frá slökkviliðinu á Ólafsvík og þyrla Landhelgisgæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert