Leit ekki út fyrir að vera alvarlegt

Mjög vont veður var á slysstað og fljúgandi hálka á …
Mjög vont veður var á slysstað og fljúgandi hálka á veginum. mbl.is/ Alfons

Fólkið sem lenti í rútuslysinu við Lýsuhól á Snæfellsnesi í gær leit ekki út fyrir að vera alvarlega slasað á vettvangi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi. Þrír voru engu að síður fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi. Var það gert af öryggisástæðum.

Tuttugu manns voru í rútunni, allt erlendir ferðamenn, fyrir utan ökumanninn. Alls slösuðust sex manns, en hinir þrír voru fluttir með sjúkrabílum á sjúkrastofnanir til aðhlynningar.

Mjög vont veður var á slysstaðnum og fljúgandi hálka, en Ólafur Guðmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir samspil færðar og áverka fólksins hafa orðið til þess að þyrlan var kölluð út.

„Eins og þetta leit út á vettvangi þá var þetta ekki mjög alvarlegt, en þó nóg til að það þurfti að flytja fólk strax. Það var svo mikil glerhálka þarna að bílarnir voru að keyra á 20 kílómetra hraða. Það er ekki gaman að fara í sjúkrabíl á 20 kílómetra hraða alla leið suður. Það var meginástæðan fyrir því að þyrlan var fengin,“ segir Ólafur. Þyrlan hafði verið afturkölluð en þegar kom í ljós hvernig færðin var þá var hún kölluð til á nýjan leik. „Það hefði annars tekið óratíma að koma fólkinu suður,“ útskýrir hann.

Ólafur segist þó ekki hafa neinar upplýsingar um hvaða greiningu fólkið fékk þegar á spítalann var komið. „Við vitum ekki hvort þetta var alvarlegra en þetta leit út á vettvangi eða enn minna alvarlegt en það leit út fyrir að vera.“

Um tildrög slyssins segir Ólafur enn ekki vitað, fyrir utan að veður var slæmt og glerhálka á veginum. Bílinn var þó vel búinn og á negldum dekkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert