76 verkefni til framkvæmda á næsta ári

Nú hefur verið kosið í íbúalýðræðisverkefninu Hverfið mitt í Reykjavíkurborg og niðurstöður liggja fyrir. Kosið var um framkvæmdir í hverfum borgarinnar og alls voru 450 milljónir til ráðstöfunar og fara þessar 450 milljónir í 76 verkefni á næsta ári.

Sama upphæð var til ráðstöfunar í fyrra, en þá voru 112 verkefni kosin. Þessi munur á fjölda skýrist af því að í ár urðu stærri verkefni fyrir valinu, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Dæmi um veglegustu og dýrustu verkefnin í ár eru vaðlaug við Grafarvogslaug (42 milljónir), göngustígur við Rauðavatn (18 milljónir), leiktæki og tartan í Breiðholtslaug (16 milljónir), endurbætur á leikvelli í Laugardalnum (14 milljónir) og tenging Hagatorgs í Vesturbænum við nærumhverfið (30 milljónir).

Í Grafarvogi fer framkvæmdaféð í þrjú verkefni en í Árbæ og Laugardal fara tólf verkefni á verkefnalista í hvoru hverfi.

10,9% Reykvíkinga nýttu sér rétt sinn til að kjósa á milli framkvæmda í sínu hverfi.  Kosningaþátttaka árið 2016 var 9,4% og 7,3% árið 2015. Atkvæðisrétt höfðu allir íbúar í Reykjavík 16 ára og eldri, en kosningar stóðu yfir á vefnum Hverfið mitt 3.–19. nóvember.

Í skjalinu hér að neðan má sjá þau öll verkefni sem urðu fyrir valinu, fjölda atkvæða að baki valinu og áætlaðan kostnað við hvert og eitt þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert