„Ég manngeri fuglana í bókinni“

Fuglar hafa undanfarin ár sveimað í kringum Hjörleif, sem hér …
Fuglar hafa undanfarin ár sveimað í kringum Hjörleif, sem hér er í góðum félagsskap spóa og uglu. Ljósmynd/Hari - Teikning/Rán Flygenring

Sumum finnst lyktin af úldnum andareggjum vera hin eina sanna jólalykt. Frá þessu segir og mörgu öðru sem tengist fuglum, í bók sem spéfuglinn Hjörleifur ritaði og ránfuglinn Rán myndskreytti. Þau taka sig ekki of alvarlega, fræða og skemmta og segja m.a. frá áhættusæknum fuglum, sérvisku þeirra og ástalífi.

„Fuglarnir hafa undanfarin ár verið sveimandi í kringum mig og ég hef komist að því hvað fuglaveröldin er stórkostlega merkilegur og skemmtilegur heimur. Við höfum ekkert sérlega fjölskrúðugt dýralíf hér á Íslandi, en við höfum þó fuglana og þeir eru mjög sýnilegir. Þegar maður fer að fylgjast vel með þeim kemst maður að því að þeir eru hver með sínu sniði, enginn þeirra flýgur til dæmis eins og annar. Og þeir eru afar ólíkir persónuleikar,“ segir Hjörleifur Hjartarson, annar höfundur bókarinnar Fugla, í viðtali um bókina í Morgunblaðinu í dag.
Hvítmávar. Karlfuglinn gerir hosur sínar græna með því að gubba.
Hvítmávar. Karlfuglinn gerir hosur sínar græna með því að gubba.

„Ég hef unnið heilmikið með fugla, ég leiddist inn í þeirra heim í gegnum starf mitt í kringum Friðland Svarfdæla. Ég var forstöðumaður á Náttúrusetri á Húsabakka í Svarfaðardal og setti þar m.a. upp sýninguna Friðland fuglanna. Í framhaldinu varð til önnur sýning á Byggðasafninu Hvoli um sjófugla. Ég var fenginn þar til að búa til sýningartexta en Rán Flygenring myndskreytti. Þar kviknaði svo hugmyndin um að við tvö gerðum bók um fugla.“

Já, það má ljúga og skreyta

   Hjörleifur segir að það sem hafi vakað fyrir sér bæði með sýningunni og nú bókinni hafi verið að ná fuglunum út úr skápnum.

Sandlóa sýnir leikræna tilburði og þykist slösuð þegar hætta steðjar …
Sandlóa sýnir leikræna tilburði og þykist slösuð þegar hætta steðjar að.

„Af því fuglafræði og náttúrufræði hefur mikla tilhneigingu til að vera alvarleg og vísindaleg. Markmiðið er að gefa skít í aðgreininguna milli vísinda og skemmtunar, sem og vísinda og þjóðtrúar. Fuglar í menningu okkar eru ríkulegur fjársjóður. Fuglar eru stór hluti af þjóðtrúnni og veðurfræðinni, þar er hrafninn nánast heil bókmenntagrein út af fyrir sig, allar krummavísurnar, málshættirnir og þjóðtrúin tengd honum sem enn lifir meðal fólks. Þess háttar fuglafræði matreiðum við Rán fyrir fólk í þessari bók,“ segir Hjörleifur og bætir við að það sem er fróðlegt megi líka vera skemmtilegt.

   „Það má líka ljúga smá, eða skreyta. Vísindi og ekki vísindi eiga ágætlega saman. Í vísindum er bannað að manngera skepnur, innan þeirra má ekki tala um tryggð fugla eða ástir. En það vil ég gera. Ég manngeri fuglana í bókinni okkar Ránar eins og hægt er, enda eru fuglar klókir, andstyggilegir, misgeðvondir og svo framvegis. Við eignum þeim hiklaust hugsanir, enda segir á bókarkápu að þetta sé vond fuglagreiningarbók,“ segir Hjörleifur og hlær.

Hvernig má læra að skilja fuglamál?

Áður var álitið að helsingjar yxu upp af ákveðnum skeldýrum …
Áður var álitið að helsingjar yxu upp af ákveðnum skeldýrum sem rekaviðardrumbar voru gjarnan þaktir.

   Hjörleifur er lærður kennari og veit því manna best að sögur eru það sem virkar best þegar koma þarf einhverju til skila. „Margt skemmtilegt og fróðlegt má læra af þessari bók og hún er fyrir fólk á öllum aldri. Ég er alfarið á móti því að flokka bækur sem og annað í tvo aðskilda hópa; annars vegar fyrir börn og hins vegar fyrir fullorðna.“

   Af nægu er að taka í sögum af fuglum í nýju bókinni, þar segir til dæmis frá því að hægt sé að eignast dreka með því að leggja gull í arnarhreiður. „Til er saga um Borgfirðing sem eignaðist dreka með þeim hætti, en reyndar varð sá dreki illmeðfærilegur, hremmdi kýr og annan búsmala. Í bókinni eru líka góðar leiðbeiningar um hvernig mannfólk getur lært að skilja fuglamál. Þar segir frá því hversu stórhættulegur andardráttur svana getur verið og að íhreiðri músarrindils sé að finna steina sem geta gert menn ósýnilega. Ef hjarta músarrindils er þurrkað og fólk hefur það í lófa sér getur viðkomandi lesið hugsanir þeirra sem hann talar við. Músarrindillinn litli er því heldur betur magnaður fugl.“

Lóan bragðaðist bara vel

Myndskreytir. Rán með bókina góðu og tjald á öxlinni.
Myndskreytir. Rán með bókina góðu og tjald á öxlinni. Ljósmynd/Sebastian Ziegler

   Hjörleifur segir mörg kennileiti tengd fuglum, nægir þar að nefna Arnarfell, Álftaver, Rjúpnafell og Krummakletta. „Það eru arnarstapar úti um allt land, sem segir okkur hversu útbreiddur örninn hefur verið. En þegar ég fór að leita málshátta um fugla komst ég að því að helmingur þeirra er um krumma. Og svo er sungið mikið um lóuna, hún er einn af þeim fuglum sem eiga stórt pláss í hjarta fólks. Þjóðin elskar hana. En í raun eru tiltölulega fáir fuglar hér á landi stórstjörnur. Við Íslendingar höfum undarlegt samband við fuglana okkar, við elskum farfuglana sem koma með vor og betri tíð. Okkur dettur ekki í hug að borða þessa fugla sem við höfum ást á, en í Frakklandi eru þeir bornir á borð sem lostæti,“ segir Hjörleifur, sem hefur smakkað lóu og hrossagauk og segir hafa bragðast ágætlega.

Sýndi hetjuskap og óð svellkaldur í gegnum kríuger

Vorboðinn ljúfi.
Vorboðinn ljúfi.

   Hjörleifur segir þó nokkurn rasisma í skoðunum mannfólksins á fuglunum. „Við hötumst við vargfuglinn, til dæmis mávinn, sem er duglegur fugl með mikla aðlögunarhæfni og étur það sem er í boði. Við þolum illa fugla sem éta litlu fuglana sem eru okkur kærir. Ég reyni að vera ekki fordómafullur gagnvart fuglum, fuglar verða að hafa sinn gang. En vissulega eru sumir fuglar flagð undir fögru skinni, himbriminn er svakalega grimmur og gullfallegur. Hann er með flugbeittan gogg og vílar ekki fyrir sér að reka hann í gegnum aðra fugla sem hann vill ekki hafa nálægt sér.“
 
Skúfendur
Skúfendur

  Hjörleifur segist ekki eiga neinn uppáhaldsfugl, en nefnir þó að sér finnist hrossagaukurinn skemmtilegur fugl. „Hann er einrænn og hjónin skilja um leið og þau geta, þau skipta ungahópnum á milli sín og deila með sér ábyrgðinni. Þetta er skuldbindingafælinn fugl sem hangir einn með sjálfum sér, óskaplega dularfullur fugl sem syngur sinn sérstaka söng. En fugl bernsku minnar var krían, hún var sá fugl sem ég var ímestum samskiptum við og hafði áhrif á mitt daglega líf þegar ég þurfti að vaða í gegnum kríuvarp til að sækja kýrnar. Kríurnar voru aðgangsharðar en maður vandist þessu. Ég gekkst upp í því að láta eins og ekkert væri, sérstaklega þegar krakkar komu í sveitina sem ekki voru vön árásum kríunnar, þá sýndi ég hetjuskap með því að vaða í gegnum kríugerið,“ segir Hjörleifur og hlær.
Skúmur hrellir.
Skúmur hrellir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert