„Ótrúlegur spuni“ í kringum kaupin

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

„Hvernig sem dæmið er skoðað er ljóst að þessi fjármálagerningur er mjög furðulegur og hefur verið mjög kostnaðarsamur fyrir Orkuveituna og eigendur hennar, þ.e. almenning í Reykjavík og öðrum eigendasveitarfélögum Orkuveitunnar. Ábyrgðina bera þeir pólitísku flokkar sem samþykktu söluna á sínum tíma.“

Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um þá ákvörðun Orkuveitunnar að kaupa til baka bygginguna sem hýsir höfuðstöðvar fyrirtækisins eftir að hafa selt hana til fasteignafélags fyrir fimm árum. Kjartan studdi ekki sölu hússins og gerði enn fremur alvarlegar athugasemdir við hana. Salan fór hins vegar fram samkvæmt ákvörðun fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna. 

Frétt mbl.is: Kaupa rakaskemmdar höfuðstöðvar

Kjartan samþykkti heldur ekki kaupin á byggingunni en hann hafði miklar efasemdir um það í ljósi ástands hennar. Komið hefur í ljós eftir söluna að húsið er illa farið af myglu og hefur meðal annars verið rætt um þann möguleika að rífa það. Kjartan lét gera eftirfarandi bókun á stjórnarfundi Orkuveitunnar í gær, en hann segir „ótrulegan spuna“ í kringum málið.

Þar er rifjað upp að húsnæðið hafi verið selt fyrir að núvirði rúma 5,4 milljarða króna en keypt aftur á rúma 5,5 milljarða. Í millitíðinni hafi Orkuveitan greitt tæpan milljarð króna í leigu til fasteignafélagsins. Við það bætist að sögn Kjartans áfallinn kostnaður vegna skemmda og viðgerða á vesturálmu hússins upp á 470 milljónir króna.

Frétt mbl.is: Orkuveitan selur höfuðstöðvarnar

Sjálfstæðismenn hafi greitt atkvæði gegn sölunni enda talið vafa leika á að um raunverulega sölu væri að ræða meðal annars í ljósi 10-20 ára leigusamnings og ábyrgðar Orkuveitunnar á viðhaldi og rekstrarkostnaði. Þá hefði söluverðið 2013 verið langt undir endurstofnverði. Kostað hefði 11,4 milljarða að byggja húsið á núgildandi verðlagi.

Fyrir vikið væri nær að tala um lánasamning þar sem leigugreiðslur væru ígildi vaxta sem þó væri á miklu lakari kjörum en fyrirtækið og Reykjavíkurborg nytu. Fyrir vikið mætti segja að Orkuveitan hafi í raun verið að taka mjög dýrt lán. Viðskiptin hafi verið óhagstæð fyrir Orkuveituna óháð þeim skemmdum sem síðar hafi komið í ljós.

Kallar Kjartan í bókuninni eftir því að kanna verði til hlítar hvort fasteignafélagið sem skráð væri eigandi hússins og hefði haft af því tekjur undanfarin ár „eigi ekki að axla meiri ábyrgð á kostnaði vegna óhjákvæmilegra viðgerða og endurbóta á því“ en gert væri ráð fyrir í tillögu meirihluta stjórnarinnar um að húsið skyldi keypt til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert