„Þetta hætti ekkert“

Jóhanna María Sigmundsdóttir á Alþingi.
Jóhanna María Sigmundsdóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér var sagt að ég þyrfti að brosa meira, ég ætti ekki að hylja mig svona mikið ef ég vildi ná lengra og vera sæt,“ sagði Jóhanna María Sigmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. Hún, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, voru gestir í Kastljósi á RÚV.

Þar ræddu þær um kynferðisofbeldi og áreitni sem konur í stjórnmálum verða fyrir. Fyrr í dag sendu 306 stjórnmálakonur frá sér áskorun vegna málsins en Facebook-hópur var stofnaður fyrir helgi þar sem konur hafa sagt frá ofbeldi og áreitni af hendi karlmanna í stjórnmálum.

Jóhanna María sagðist hafa haldið að þetta myndi hætta, menn væru eflaust bara að leiðbeina henni af því að hún var ung og ný á þingi. „Þetta hætti ekkert,“ sagði Jóhanna en hún sat á þingi árin 2013 - 2016.

Hún skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2015 þar sem hún fjallaði um skaðsemi plasts þar sem hún benti á að hjálpartæki ástarlífsins gætu innihaldið efni skaðleg fólki. Hún fékk fjölda óviðeigandi athugasemda í kjölfarið á greininni. „Einn maður sagði að eftir að hann las greinina mína nægði að hugsa um mig og það sem ég skrifaði til þess að fullnægja sér,“ sagði Jóhanna.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oft látið eins og konur séu peð í tafli karla

Áslaug Arna sagði að í sínu tilviki snerist málið mest um kynferðislegar athugasemdir. „Þá er sagt að ég sé ekki jafnhæfileikarík og staðan gefi til kynna og maður hljóti að hafa sofið hjá þeim sem völdin hafa til að hafa komist þangað sem maður er,“ sagði Áslaug og hún bætti við að oft væri látið eins og konur væru peð í tafli karlmanna og ekki þar á eigin verðleikum.

„Það er leiðinlegt, erfitt og sárt,“ sagði Áslaug.

Heiða sagði að svona sögur mætti heyra úr öllum flokkum og það yrði að létta af þessu. Þær voru allar sammála um að mikilvægt væri að stjórnmálaflokkarnir sköpuðu þannig umhverfi að öllum líði vel og finni fyrir öryggi.

Heiða Björg Hilmarsdóttir.
Heiða Björg Hilmarsdóttir. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert