Þrír klukkutímar í engu skyggni

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Björgunarsveitin Húni var um þrjá klukkutíma að komast frá Hvammstanga upp á Holtavörðuheiði til að aðstoða fólk sem hafði fest bíla sína í ófærðinni.

„Þetta var mjög seinfarið,” segir Gunnar Örn Jakobsson, formaður Björgunarsveitarinnar Húna en tveir bílar frá sveitinni voru sendir á vettvang. 

„Það sást bara ekki neitt, skyggnið var svo lélegt. Það var keyrt eftir GPS-tækjum.”

Um 18 metrar á sekúndu voru á heiðinni snemma í morgun og blindbylur.

Sjö flutningabílar voru skildir eftir á heiðinni og segir Gunnar Örn að snjóplóga þurfi til að losa þá.

Björgunarsveitin fylgdi einum bíl niður heiðina en annar sem hafði lent utan vegar var skilinn eftir.

Að sögn Gunnars Arnar voru um fjórir fólksbílar í vandræðum í heildina. Björgunarsveitin keyrði fram á einn bíl með erlendum ferðamönnum við Fornahvamm og var hann dreginn og honum snúið við.

Hann segir að stórt verkefni bíði Vegagerðarinnar við að opna Holtavörðuheiði aftur, auk þess sem losa þurfi þá flutningabíla sem þar sitja fastir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert