Vegir lokaðir víða um land

Vetrarfærð er á landinu öllu og víða fljúgandi hálka eða …
Vetrarfærð er á landinu öllu og víða fljúgandi hálka eða beinlínis ófært. mbl.is/Árni Sæberg

Vegurinn um Holtavörðuheiði er lokaður, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Sömu sögu er að segja af Kleifaheiði á sunnanverðum Vestfjörðum. Hringvegurinn er lokaður frá Hrútafirði að Vatnsdal. Lokað er bæði í Öræfasveit vegna óveðurs og á Lyngdalsheiði.

Ekkert lát er á norðanáttinni en í ábendingu frá veðurfræðingi kemur fram að tekið er að hvessa á nýjan leik, af norðaustri. Við það aukist skafrenningur víða um landið norðan- og austanvert og skyggni versnar. „Hins vegar er minni éljagangur framan af kvöldi, en eykst síðan aftur til morguns. Hviður allt að 35 m/s á sunnanverðu Snæfellsnesi og  fram yfir miðnætti á Kjalarnesi. Þá má frá Lómagnúpi og austur undir Höfn í kvöld og fram eftir nóttu gera ráð fyrir staðbundnum sviptivindum allt að 40-45 m/s í hviðum og eins [getur verið] hált þar í hita nærri frostmarki.“

Skafrenningur er víða á fjallvegum á Suðurlandi. Á Vesturlandi er sunnanvert Snæfellsnes lokað, sem og Fróðárheiði og Holtavörðuheiði, eins og áður segir.

Steingrímsfjarðarheiði, Klettsháls, Kleifaheiði og Hálfdán eru ófær á Vestfjörðum en fram kemur að á milli Kleifaheiðar og Brjánslækjar sé flughált. Þungfært mun vera í Ísafjarðardjúpi og á Þröskuldum.

Á Norðurlandi er víða töluverð snjókoma og skafrenningur eða éljagangur. Fram kemur að þæfingsfærð sé á Öxnadalsheiði en ófært sé milli Laugarbakka, Hvammstanga og yfir í Vatnsdal. Vegurinn um Dalsmynni er ófær og flughált er í Bakkafirði.

Fyrir austan er þæfingur á Fjarðarheiði og hálka er víða á vegum. Með suðausturströndinni er nokkuð hvasst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert