Birtingin ekki borin undir Geir

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Birting á endurriti af símtali Davíðs Oddsonar, þáverandi seðlabankastjóra, og Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, var ekki borin undir Geir. Endurritið var birt í Morgunblaðinu á laugardag en Geir segir í svari við fyrirspurn Vísis að það hafi ekki verið borið undir hann. Davíð er ritstjóri Morgunblaðsins.

„Innihald samtalsins ber það með sér að það er ekki vegna efnis þess sem ég hef verið andvígur birtingu þess heldur vegna þess að það er ólíðandi fyrir forsætisráðherra, hver sem hann er, að samtöl hans við embættismenn ríkisins séu hljóðrituð án hans vitundar til opinberrar birtingar síðar,“ segir Geir í svari sínu.

Hann segir að það væri fróðlegt fyrir fjölmiðla að velta fyrir sér hvernig forverar hans í embætti hefðu brugðist við slíku og að hann hafi svarað öllum efnisatriðum varðandi símtalið oft áður.

Í sím­tal­inu milli Davíðs og Geirs sem átti sér stað skömmu fyr­ir há­degi 6. októ­ber 2008 sama dag og neyðarlögin voru sett, má sjá að í fyrri sam­skipt­um þeirra í milli hafi for­sæt­is­ráðherra lagt á það áherslu að allra leiða yrði leitað til að bjarga Kaupþingi frá gjaldþroti. Ákveðið var að veita Kaupþingi 500 milljóna evra lán með veði í danska bankanum FIH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert