Færri komust í flugið en vildu

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, ásamt Jónasi Jónassyni og …
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, ásamt Jónasi Jónassyni og Bryndísi Torfadóttur. Myndin er úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er sérstaklega vont þegar það er ófært landleiðina líka,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect. Veður hefur hamlað flugsamgöngum til og frá Ísafirði í vikunni en veðurspár gera áfram ráð fyrir miklu hvassviðri víða um land.

Fjallvegir á Vestfjörðum hafa verið meira og minna ófærir í vikunni svo fyrir liggur að Ísfirðingar hafa á köflum verið innlyksa.

Árni segir að á mánudaginn hafi verið fært fyrri ferðina suður en síðari vélinni hafi verið snúið við. Í gær hafi ekkert verið fært til Ísafjarðar vegna veðurs og í dag hafi verið ófært fram yfir hádegi. „Við fórum eftir hádegi í dag en ekkert meira en það,“ segir hann um flugleiðina á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.

Hann viðurkennir að fleiri hafi í dag verið um sætin en komust með vélinni. „Við reynum auðvitað að fara um leið og hægt er – með öryggið að leiðarljósi,“ segir Árni. Þess má geta að flug féll ekki niður í dag á milli Reykjavíkur og Akureyrar annars vegar og Reykjavíkur og Egilsstaða hins vegar.

Hann segir að þótt veðurspáin sé ekki góð segi það ekki alla söguna. Það skipti miklu máli úr hvaða átt vindurinn blási og hvernig hann gangi yfir. Hann útilokar ekki að fært verði til Ísafjarðar á morgun. „Við erum ekkert farin að skoða það að ráði. Við tökum stöðuna í fyrramálið. Það er ekki öruggt hvernig spárnar rætast þó að þær séu alltaf að batna,“ segir hann.

Aðspurður segir hann fremur sjaldgæft að flug raskist marga daga í röð. Á Ísafirði séu aðstæðurnar erfiðastar af þeim þremur völlum á landsbyggðinni sem flugfélagið noti.

Hann biðlar til farþega að fylgjast vel með og boðar að þeir verði látnir vita um framvindu mála næstu daga.

Vetrarveður á Ísafirði.
Vetrarveður á Ísafirði. bb.is/Sigurjón
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert