Þarf mögulega að endurskoða ferðaáætlun félagsins

Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands, þekkir gönguleiðirnar …
Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands, þekkir gönguleiðirnar um Öræfajökul vel. Mynd/ Magasínið

Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands, ræddi gönguleiðirnar um Öræfajökul síðdegis á K100. Hann segir Ferðafélag Íslands bjóða reglulega upp á ferðir um Öræfajökul og vegna frétta af hugsanlegu gosi þurfi mögulega að endurskoða skipulagðar ferðir um svæðið.

Fór yfir svæðið í vor

Fjöldi Íslendinga hefur gengið upp á hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk, en einmitt á þeirri leið er sigketillinn að myndast miðað við fréttamyndir og fréttaskýringar af svæðinu. Hann lýsir leiðinni þannig. 

„Þessi askja er svona 5 kílómetrar í þvermál. Þannig að þegar þú kemur upp svokallaða Sandfellsleið, sem er venjulega leiðin á Hvannadalshnjúk, þá kemur þú upp á öskjubrúnina og beygir til vinstri og þar er Hvannadalshnjúkur.“

Í viðtalinu lýsir hann fjallaskíðaferð sem hann fór ásamt góðum hópi á Sveinstinda á Öræfajökli í vor, áður en sigketilinn fór að myndast. Hann lýsir því hvernig hópurinn varð að þvera þá slettu þar sem sigketillinn er nú. Ólafur Már Björnsson tók myndir af svæðinu í þeirri ferð og má nálgast það myndskeið hér að neðan. 

Ferðafélögin taka ferðirnar mögulega af dagskrá

Helgi segir að í mörg ár hafi ferðir á Öræfajökul verið gríðarlega vinsælar. Hann bendir á að jarðvísindamenn hafi lengi bent á hættuna við að ganga á Heklu vegna hættu á eldgosi. En hann segir þó mögulega hægt að forða sér þaðan. 

„Hekla er samt miklu lægra fjall og það er möguleiki að forða sér ef eitthvað gerist. Það er lengi verið að labba af toppnum af Hvannadalshnjúk og niður í byggð og það er ekki einu sinni víst að það myndi bjarga þér ef flóðið er á eftir þér,“ segir Helgi. Hann telur því mögulegt að ferðafélögin taki ferðirnar út af dagskrá ef óvissan heldur áfram. 

„Jarðvísindamenn segja að þeir viti ekkert hvort eitthvað gerist þarna á morgun eða eftir 16 ár,“ bætir Helgi við og segir hann 16 ár hafa liðið frá því að menn fóru að spá gosi í Eyjafjallajökli og þar til það varð. 

Viðtalið má nálgast í heild hér að neðan. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert