Rútuslys í aftakaveðri fyrir austan

Þjóðveginum hefur verið lokað.
Þjóðveginum hefur verið lokað. Kort/Map.is

Níu björgunarsveitir á Norðausturlandi hafa verið kallaðar út eftir rútuslys í Víðidal á Austurlandi. Rúta ók þá aftan á snjóruðningstæki en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum er einn slasaður, þó ekki alvarlega. Fimm aðrir meiddust lítillega. 

Lögregla segir að 25 hafi verið í rútunni en um sé að ræða ferðamenn frá Taívan. „Aðstæður eru slæmar og eitthvað af björgunarfólki er komið á vettvang,“ segir lögreglumaður í samtali við mbl.is.

Sjúkrabíll frá Egilsstöðum er kominn á vettvang en annar frá Vopnafirði hafnaði utan vegar á leið sinni á slysstað. Glórulaust veður mun vera á svæðinu. Lögregla segir að margir bílar séu í vandræðum en björgunarsveitir einbeiti sér að fólkinu í rútunni.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa hjá Landsbjörg, hefur hópslysaáætlun verið virkjuð vegna slyssins og sömuleiðis samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð. 30 björgunarsveitarmenn eru á leið á vettvang en fyrstu menn komu að slysstað upp úr klukkan þrjú.

Þjóðvegur 1 hefur verið lokaður frá Jökuldal norður að Mývatni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert