Vitlaust veður næstu tvo sólarhringa

Hringveginum verður lokað milli Víkur og Markarfljóts í kvöld og …
Hringveginum verður lokað milli Víkur og Markarfljóts í kvöld og verið var að undirbúa lokun um klukkan átta. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Vaxandi lægð fyrir austan land ásamt öflugri hæð yfir Grænlandi veldur því að næstu tvo sólarhringa verður nær samfellt hríðarveður með skafrenningi frá Vestfjörðum og austur á land.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni en Veðurstofan er með appelsínugula viðvörun á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðausturlandi. Búist er við vindhraða upp á 17-22 m/s og að skyggni verði jafnvel minna en 100 metrar.

Þá verða sviptivindar viðvarandi undir Eyjafjöllum og í Mýradal 30-40 m/s. Frá Lómagnúpi og austur að Höfn, allt að 45 m/s í hviðum og síðar meir einnig í Hamarsfirði og á sunnanverðum Austfjörðum.

Lokanir vega

Líkur eru á því að ekki verði unnt að opna fyrir umferð um Skeiðarársand og Öræfasveit fyrr en hugsanlega um miðjan dag á morgun, fimmtudag. Í fyrramálið er jafnframt reiknað með því að lokunarsvæði muni ná allt austur að Höfn.

Búist er við því að grípa verði til lokana á Hringvegi frá Markarfljóti að Vík frá því seint í kvöld og fram á morgundaginn.

Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru nú lokuð, ekki eru líkur á því að unnt verði að opna næsta sólarhringinn. Enn fremur er búist er við víðtækum lokunum vega á Norður- og Austurlandi strax í fyrramálið og síðdegis á fimmtudag einnig á Vestfjörðum.

Vísbendingar eru um að ekki verði unnt að hefja hreinsun heiðarvega og langleiða á Norður- og Austurlandi fyrr en á laugardagsmorgun, en líklega fyrr á Vestfjörðum. Áætlun verður uppfærð eftir því sem veðri og spám vindur fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert