8 bíla árekstur á Holtavörðuheiði

Á Holtavörðuheiði. Mynd úr safni.
Á Holtavörðuheiði. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Ægisson

Fjöldaárekstur varð á Holtavörðuheiði nú um eittleytið þegar að minnsta kosti 8 ökutæki rákust saman. Búið er að loka heiðinni vegna óhappsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Ekki er talið að neinn hafi slasast alvarlega í þessu óhappi en lögreglan er á leið á vettvang ásamt öðrum viðbragðsaðilum og verður Holtvörðuheiðin lokuð á meðan vinna við að greiða úr málum stendur.

Óvíst er hvenær opnar aftur. Hjáleið er um Laxárdalsheiði en þar er þæfingsfærð.

Uppfært kl. 13:52:

Að sögn lögreglunnar á Vesturlandi er mjög blint á Holtavörðuheiðinni og hún erfið yfirferðar. Tveir lögreglubílar eru á leiðinni á staðinn ásamt björgunarsveitum.

Uppfært kl. 14.11:

Lögreglan er komin á vettvang og sjúkrabíl er á leiðinni. Ekki er vitað hvort slys urðu á fólki.

Tveggja bíla árekstur varð einnig svolítið sunnan við staðinn þar sem átta bíla áreksturinn varð, eða nær Borgarnesi. Ekki er talið að neinn hafi slasast í þeim árekstri. 

Uppfært kl. 14:38

Veghefill fór út af veginum og snjóruðningsbíll situr fastur. Sjö til átta bílar fóru einnig út af veginum eða eru fastir á heiðinni, samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni Brák í Borgarnesi, sem er á leiðinni á staðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert