Farþegar rútunnar héldu á hótel

Frá slysstað í Víðidal á Fjöllum í gær. Farþegar rútunnar …
Frá slysstað í Víðidal á Fjöllum í gær. Farþegar rútunnar voru fluttir með björgunarsveitabílum til Egilsstaða. Mynd/Landsbjörg

Fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins á Egilsstöðum var lokað í gærkvöldi eftir að farþegar rútunnar sem lenti í árekstri við snjóplóg í Víðidal á Fjöllum höfðu fengið afgreiðslu sinna mála.

Farþegar rútunnar, 25 ferðamenn frá Taívan, héldu til næturgistingar sem þeir áttu pantaða, að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum, en rútan var á austurleið er slysið varð.

Ekki urðu alvarleg slys á fólki, en nokkrir farþeganna kenndu sér lítillega meins eftir áreksturinn og fengu skoðun á heilsugæslu. Níu björgunarsveitir tóku þátt í aðgerðum í gærkvöldi, en veðuraðstæður voru afar erfiðar á slysstað.

Viðbragðsaðilar lentu í nokkrum vandræðum á leið sinni að slysstaðnum og fór sjúkrabíll meðal annars út af veginum. Á vef Austurfréttar er haft eftir Sveini Halldóri Oddssyni Zoëga, sem er í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi, að skyggni hafi verið lítið og menn hafi kannski verið að flýta sér í upphafi, á meðan ekki var ljóst hvernig staðan var.

Víðast ófært á Austurlandi

Flestir fjallvegir á Austurlandi eru lokaðir og einungis loftleiðin til Egilsstaða er fær. Vegurinn um Fagradal á milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar er lokaður og að sögn lögreglu er verið að hjálpa ökumönnum sem sitja fastir á veginum, svo hægt sé að moka hann.

Þjóðvegur 1 er einnig lokaður á Möðrudalsöræfum og sunnan Djúpavogs. Auk þess eru leiðirnar um Fjarðarheiði og Vatnsskarð eystra lokaðar.

Flestir fjallvegir á Austurlandi eru lokaðir.
Flestir fjallvegir á Austurlandi eru lokaðir. Skjáskot af vef Vegagerðarinnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert