Losuðu bíla sem voru fastir á Fjarðarheiði

Björgunarsveitarmenn að störfum. Björgunarsveitir hafa sinnt lokun vega á Suðausturlandi …
Björgunarsveitarmenn að störfum. Björgunarsveitir hafa sinnt lokun vega á Suðausturlandi og Norðausturlandi frá því í gær. Mynd:Orri Örvarsson/Landsbjörg

Engin útköll voru hjá björgunarsveitum í nótt, en óskað var eftir aðstoð björgunarsveitar á Austurlandi rétt fyrir klukkan sex í morgun til að losa bíla sem fastir voru á Fagradal til að snjóruðningstæki gætu komist rutt leiðina. Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

App­el­sínu­gul viðvör­un Veðurstofu Íslands er í gildi á Vest­fjörðum, Strönd­um, Norður­landi vestra, Norður­landi eystra og Suðaust­ur­landi, en norðan hvassviðri eða storm­ur verður á land­inu í dag, með ofan­komu um norðan­vert landið og mjög hvöss­um vind­hviðum und­ir Vatna­jökli og víðar suðaust­an­til á land­inu.

Hring­veg­in­um er lokað frá Markarfljóti að Vík, frá Skeiðarársandi að Höfn ásamt Djúpavogi að Þvottá og á Fagradal. Þá eru Mý­vatns og Möðru­dals­ör­æfi lokuð, sem og Fróðárheiði á Snæfellsnesi, og hafa björgunarsveitir verið að sinna þeim verkefnum frá því í gær að sögn Davíðs.

Á vef Vegagerðarinnar segir ólík­legt sé að vegirnir verði opnaðir í dag og að búast megi við víðtæk­um lok­un­um á Vestfjörðum og Norður- og Aust­ur­landi í dag.

Eru ferðalang­ar hvatt­ir til að kynna sér vel færð á veg­um hjá Vega­gerðinni, veður­spár og viðvar­an­ir áður en lagt er í hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert