Telur Geir í raun ekki hafa tapað

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Dapurlegt þykir mér vera hlutskipti Mannréttindadómstólsins í Strasbourg og hann setja mjög niður með þessum úrskurði sínum um að pólitísk réttarhöld hafi verið í góðu lagi. Nánast hlægilegt er að lesa það í dómsorðinu að atkvæðareiðslan á Alþingi um að stefna Geir fyrir landsdóm hafi ekki verið pólitísk!“

Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, gegn íslenska ríkinu vegna málaferlanna gegn honum fyrir landsdómi sem lauk með því að hann var sakfelldur fyrir einn ákærulið af sex sem lagt var af stað með.

Frétt mbl.is: Ríkið sýknað í landsdómsmáli

„Hér þykist ég geta talað sem vitni. Auðvitað var atkvæðagreiðslan það og réttarhöldin í framhaldinu því pólitísk. Þetta gætu allir staðfest sem fylgdust með þessu máli á vettvangi og eru nógu heiðarlegir til að viðurkenna það,“ segir Ögmundur en hann var einn þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði með ákærunni en studdi síðar að hún væri dregin til baka.

„Í mínum huga hefur Geir Haarde ekki tapað í þessu máli. Við sem hófum þetta mál töpuðum því hins vegar frá fyrsta degi, einfaldlega með því að krefjast fangelsisdóms yfir manni fyrir að framfylgja pólitískri sannfæringu sinni; manni sem bakkaður var upp af samherjum, að ógleymdum kjósendum og viti menn, flestum fjölmiðlum á þeim tíma.“

Síðan hafi allt breyst þegar í ljós hafi komið hve skaðleg stefna peningafrjálshyggjunnar hefði reynst samfélaginu. „Þá varð leyfilegt ef ekki nauðsynlegt að finna einn blóraböggul. Það hefur stundum gerst í mannkynssögunni þegar þörf hefur verið á syndaflausn fyrir aðra.“ Ögmundur bætir síðan við efasemdum sínum um niðurstöðu landsdóms.

„Ég hef löngum haft grun um að niðurstaða landsdóms á sínum tíma sem sýknaði forsætisráherrann að flestu leyti en ekki öllu, og það er mikilvægt, hafi verið tilraun til málamiðlunar – einhvers konar friðþæging til að láta ákæruvaldið hafa svolítinn sigur líka Það er slæm tilfinning að bera í brjósti gagnvart landsdómi og nú einnig gagnvart dómstólnum í Strasbourg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert