Skoða frekari forðaöflun

Borinn Óðinn við Laugaland.
Borinn Óðinn við Laugaland. Ljósmynd/Stefán Gunnar Stefánsson

„Við ætlum að mæla holuna betur og skoða hvernig við förum í frekari forðaöflun fyrir Rangárveitur,“ segir Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Veitna, en í vikunni var hætt bor­un í landi Götu við Lauga­land til að afla heits vatns fyrir Rangárþing ytra og eystra og Ása­hrepp. Ekkert heitt vatn fannst í þessari borun.

Meðan á boruninni stóð var meðal annars sundlaugunum á Hvolsvelli, Hellu og Laugalandi lokað. Þær verða opnaðar aftur á næstunni. Veit­ur gang­setja á ný þá holu sem hvíld var meðan á bor­un stóð og bú­ast má við að nokkra daga taki að ná jafn­vægi í rekstri veit­unn­ar. Eðli málsins samkvæmt eykst notkun heita vatnsins yfir vetrartímann og því var ekki unnt að hvíla aðalholuna lengur. „Þá erum við góð inn í veturinn og verðum á sama róli og á síðasta vetri. Það gekk bærilega,“ segir Ólöf um næstu skref. 

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort borað verði aftur seinna í holunni, en farið var á 1.855 metra dýpi, eða hvort leitað verði að heitu vatni á nýjum stað. Hún segir að vissulega sé hentugra að fara í slík verkefni að vori eða á sumri til þegar þörf fyrir heitt vatn er ekki eins mikil og yfir veturinn. Hins vegar er þörf á heitu vatni til framtíðar á svæðinu en Ólöf tekur fram að ekki er útlit fyrir vatnsskort á svæðinu á næstunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert