„Eigum ekki að þurfa að þegja lengur“

Hátt í 600 konur hafa skrifað undir yfirlýsinguna.
Hátt í 600 konur hafa skrifað undir yfirlýsinguna. Ljósmynd verilymag.com

Hátt í sex hundruð konur í #metoo-hópi kvenna í sviðslistum og kvikmyndagerð hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem þær krefjast þess að karlkyns samverkamenn sínir taki ábyrgð vegna kynferðisofbeldis, áreitni og kynbundinnar mismununar í geiranum.

Einnig krefjast þær þess að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á slíkum málum og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun.

„Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur eða leiða ástandið hjá okkur. Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur. Fyrst og fremst á misréttinu að linna,” segir í yfirlýsingunni.

„Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Við stöndum saman og höfum hátt.”

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir er ein þeirra sem skrifar undir yfirlýsinguna.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir er ein þeirra sem skrifar undir yfirlýsinguna.

Þar kemur fram að kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun eigi sér stað í sviðslista- og kvikmyndageiranum, rétt eins og annars staðar í samfélaginu. 

Þá geri smæð bransans og takmarkaður fjöldi hlutverka/tækifæra aðstæður erfiðari. 

„Óþarfi er að taka fram að allir karlar gerast ekki sekir um áreitni eða mismunun – en hins vegar verða nær allar konur fyrir því á starfsferli sínum og það er algerlega óásættanlegt.”

Hópurinn hefur einnig birt sögur sem lýsa ofbeldinu sem konur hafa orðið fyrir.

Í Kastljósþætti kvöldsins var rætt við þær Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur leikkonu, Silju Hauksdóttur leikstjóra og Sara Marti Guðmundsdóttur, leikara og leikstjóra.

Þórdís þakkaði íslenskum stjórnmálakonum fyrir að hafa stigið fyrsta skrefið hér á landi með kerfisbundnum hætti en þær sendu frá sér samskonar yfirlýsingu í síðustu viku.

Hún sagði sögurnar lýsa kerfislægum viðhorfsvanda hér á landi. Svo virðist sem konur séu hvergi óhultar þegar kemur að sviðslistum og kvikmyndagerð.

Í sögunum er lýst káfi, kynferðislegum athugasemdum og nauðgunum.

Hún sagði konurnar í mörgum tilvikum hafa verið hræddar við að segja frá af ótta við að fara á mis við tækifæri. Einnig sé um að kenna úrræðaleysi um hvert skal leita.

„Við höfum sjö mínútur“

Sara Marti lýsti því þegar hún lék í barnasýningu sem nýútskrifaður leikari. Mótleikari hennar hafi káfað á rassinum á henni í miðri sýningu. Í búningsherberginu hafi sami leikari beðið eftir henni, búinn að klæða sig úr fötunum og sagt: „Við höfum sjö mínútur”.

Hún sagðist engum hafa sagt frá. Maðurinn hafi verið bæði vinsæll og vel liðinn. Hún hafi ekki viljað vera stimpluð sem „erfiða vesenis-leikkonan”.

Silja Hauksdóttir sagðist ekki hafa tölu á þeim tilvikum þar sem hún hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu.

Ari Matthíasson Þjóðleikhússstjóri  og Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, mættu einnig í Kastljós. Ari sagðist þrívegis hafa fengið kvartanir um kynferðislega áreitni síðan hann tók við störfum árið 2010. Um hafi verið að ræða tæknimenn, leikara og leikstjóra.

Hann sagði slík mál tekin alvarlega og reynt hafi verið að láta menn axla sína ábyrgð.

Fríða Björk sagði að tekið yrði mjög hart á málum sem þessum í skólanum. Talaði hún um að endurskoða verði verkferla við kennslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert