„Veröldin varð dökk, lífið umsnerist í einni hendingu“

Sigurður Ingi minnist foreldra sinna og hvetur fólk til þess …
Sigurður Ingi minnist foreldra sinna og hvetur fólk til þess að fara varlega í umferðinni. mbl.is/Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, minnist foreldra sinna í færslu á Facebook-síðu sinni í dag, en á þessum degi fyrir þrjátíu árum létust þau í bílslysi í Svínahrauni. Þá var Sigurður Ingi við nám í Kaupmannahöfn.

„Veröldin varð dökk, lífið umsnerist í einni hendingu,“ skrifar Sigurður Ingi.

„Lán okkar systkina var kærleikur og umhyggja fjölskyldu, vina og samfélagsins þar sem við ólumst upp. Án alls þess stuðnings sem allt þetta fólk veitti okkur hefði verið erfitt að komast í gegnum sorgina og alls þess sem beið okkar. Fyrir það verður aldrei fullþakkað.“

Sigurður Ingi segir að sér hafi verið hugsað til þessa er hann keyrði Svínahraunið í morgun.

„Foreldrar mínir voru yndislegt fólk sem við söknum. Blessuð sé minning þeirra,“ ritar Sigurður Ingi og bendir að lokum á þá staðreynd að um 1.500 manns hafa látist í umferðinni frá árinu 1914.

„Veturinn og myrkrið er oft hættulegasti tíminn. Förum því varlega kæru vinir og pössum hvert annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert