Versluninni Kosti lokað

Verslunin Kostur við Dalveg í Kópavogi.
Verslunin Kostur við Dalveg í Kópavogi. Morgunblaðið/Ómar

Ákveðið hefur verið að loka versluninni Kosti við Dalveg í Kópavogi. Næstu daga verður þar haldin rýmingarsala þar sem vörur verða boðnar á allt að helmingsafslætti.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Jón Gerald Sullenberger, eigandi verslunarinnar, segir í tilkynningunni að Kostur geti ekki keppt við Costco, eina stærstu verslunarkeðju í heiminum.

„Ég vil þakka öllum okkar dyggu viðskiptavinum sem hafa stutt við bakið á okkur og komið til okkar á þessum árum sem verslunin var starfrækt,“ segir hann.

Jón Gerald Sullenberger.
Jón Gerald Sullenberger. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynningin í heild sinni:

„Verslunin Kostur var opnuð við Dalveg í Kópavogi í nóvember 2009 og hefur því verið starfrækt í 8 ár. Frá upphafi var lögð áhersla á amerískar gæðavörur sem seldar voru í stórum pakkningum til að ná fram stærðarhagkvæmni. Verslunin kynnti meðal annars vörumerkið Kirkland fyrir Íslendingum sem er helsta vörumerki Costco. Aðstæður breyttust verulega í rekstri Kosts þegar Costco opnaði verslun á Ísland í maí síðastliðnum þar sem í mörgum tilvikum var verið að bjóða sambærilegar vörur frá Kirkland.

Ég tók fréttum af opnun Costco fagnandi enda samkeppni mikilvæg. En það hefur sýnt sig að verslun eins og Kostur getur ekki keppt við eina stærstu verslunarkeðju í heiminum sem veltir margfalt landsframleiðslu Íslands. Við gripum til ýmissa ráða til að bregðast við harðnandi samkeppni en það dugði ekki til. Við höfum því ákveðið að loka versluninni. Næstu daga verður haldin rýmingarsala í Kosti þar sem vörur verða boðnar á allt að helmingsafslætti.

Ég vil þakka öllum okkar dyggu viðskiptavinum sem hafa stutt við bakið á okkur og komið til okkar á þessum árum sem verslunin var starfrækt. Við höfum verið með góða birgja bæði innlenda og erlenda og þökkum við þeim einnig fyrir viðskiptin. Við höfum verið einstaklega heppin með starfsfólk sem hefur lagt sig fram við að þjónusta viðskiptavini okkar sem best. Margir þeirra hafa verið hjá okkur frá opnun verslunarinnar og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK