Ekki lögmál að unglingar séu óánægðir

„Við erum fyrst og fremst að leggja áherslu á fyrirbyggjandi sjálfstyrkingu. Við sem samfélag erum orðin svo meðvituð um að fyrirbyggja það að sjálfsmynd barnanna okkar þróist í neikvæða átt,“ segir Kristín Tómasdóttir sem stendur fyrir námskeiði í samstarfi við Bjarna Fritzson þar sem foreldrum er kennt að styrkja sjálfsmynd barna sinna. Bæði hafa þau einnig skrifað sjálfstyrkingarbækur fyrir börn og unglinga og standa fyrir reglulegum sjálfsstyrkingarnámskeiðum fyrir sama aldurshóp.

Þetta er í annað sinn sem námskeiðið er haldið og er eftirspurnin er gríðarleg. Í fyrra mættu 300 manns og komust færri að en vildu.

„Námskeiðið fylltist í alvöru á einum sólarhring, en salurinn tekur 300 manns. Eftirspurnin kom mér mikið óvart,“ segir Kristín um aðsóknina núna, en ákveðið hefur verið að bæta við námskeiði þann 18. desember. „Foreldrar leggja ýmislegt á sig til að sitja fyrirlestur um hvernig þeir geti verið betri foreldrar, leggja allt annað til hliðar og mæta. Það er bara frábært. Ekki bara einn eða tveir, heldur 300,“ bætir hún við.

„Þetta er auðvitað ókeypis námskeið en mér finnst þetta sýna að foreldrar forgangsraða börnunum sínum í vil. Það er heldur ekki lát á skráningum á sjálfstyrkingarnámskeið hjá okkur báðum, fyrir stelpur og stráka. Foreldranámskeiðið er hins vegar ekki sjálfsstyrkingarnámskeið, heldur er það fyrst og fremst námskeið þar sem við kennum foreldrum að styrkja börnin sín. Að stunda markvissa sjálfsrækt heima fyrir og fylgja þessu eftir. Fólk vill fá þessar upplýsingar.“

Gátum haft áhrif á unglingadrykkju og reykingar

Kristín telur að það sé vitundarvakning um þessi mál í samfélaginu öllu. Þau sjái það einfaldlega á sölutölum á bókunum sínum. „Það er ekkert lát á eftirspurn eftir fyrirlestrum og námskeiðum hjá okkur. Foreldrar eru mjög meðvitaðir, þrátt fyrir að þeir séu ekki farnir að sjá svakaleg merki, þá vita þeir að það getur gerst og vilja fyrirbyggja það. Þetta hefur verið að breytast.“

Hún bendir á að áfengisneysla og reykingar unglinga hafi dregist mikið saman á síðustu árum og foreldrar séu að átta sig á því að þeir geti haft mikil áhrif. „Við gátum haft áhrif á það að unglingadrykkja minnkaði og að unglingar reykja ekki jafn mikið og þeir gerðu. Við erum búin að fatta að við getum haft miklu meira um þetta að segja en við héldum. Þess vegna eru foreldrar svo tilbúnir að læra og afla sér upplýsinga. Þeir átta sig á hvað vald þeirra og hlutverk er mikilvægt og það er gott að þeir vilji fyrirbyggja að sjálfsmynd barna þeirra þróist í neikvæða átt.“

Neikvæð sjálfsmynd fer að þróast um 10 ára aldur

Kristín segir rannsóknir sýna marktækt fram á að sjálfsmynd stelpna byrji að þróast í neikvæða átt við 10 til 12 ára aldur. Þar sem strákar eru að jafnaði tveimur árum á eftir stelpum í félagsþroska þá hefst ferlið síðar hjá þeim og er öðruvísi.

„Við sem foreldrar finnum fyrir þessum niðurstöðum. Foreldrar hafa í gegnum tíðina orðið varir við þetta. Þeir sjá að unglingar eru óöruggir og unglingum líður oft ekki vel með sjálfa sig. Þessi neikvæða sjálfsmynd hefur slæmar afleiðingar. Ég held að fólk sé að átta sig á því að við getum gert eitthvað í þessu. Það er ekki bara lögmál að unglingar eigi að vera óánægðir með sig. Við getum haft áhrif á þetta. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum.“

Hún segir þau ekki mælast til þess að foreldrar setjist niður með börnum sínum og leysi ákveðin verkefni sem stuðla eigi að betri sjálfsmynd, heldur snúist þetta um viðmótið og orðin sem notuð eruð. Þau leggi til mismunandi leiðir sem sem hægt er að nota þegar talað er við börn, og með því haft áhrif á sjálfsmynd þeirra.

„Það sem við leggjum helst áherslu á er að sjálfsmyndin er í hugsunum barnanna okkar. Það er óþolandi við sjálfsmyndina að við sem foreldrar getum ekki stýrt henni. Þetta snýst allt um það hvernig þau hugsa um sig sjálf. Það eina sem við getum gert er að aðstoða þau við að hugsa fallegra um sig. Við gerum það með því hvernig við tölum við þau og hvernig viðmót við sýnum þeim.“

Dætur niður í sex ára í megrun

Kristín sendir nú frá sér sína sjöttu bók, Sterkar stelpur sem miðar að því að styrkja sjálfsmynd ungra stelpna. Þar færir hún sig mun neðar í aldri en hún hefur áður og er bókin ætluð stelpum á aldrinum 6 til 12 ára.

„Ég er að reyna að fá börn á aldrinum 6 til 12 ára til að átta sig á að við erum með eitthvað sem heitir sjálfsmynd. Ég er að kenna þeim sjálfsvitund og að þær geti haft einhver áhrif á það hvernig sjálfsmynd þær eru með,“ útskýrir hún.

Kristín viðurkennir að hún hafi í fyrstu verið feimin við að stíla inn á svo ungar stelpur. Hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að setja efnið fram, en eftirspurnin var einfaldlega svo mikil að hún ákvað að sjá  hvað hún gæti gert.

„Það var svo mikið verið að spyrja um þetta. Foreldrar sem kannski eru farnir að sjá dætur sínar, allt niður í 6 ára, fara í megrun. Fyrst var ég svolítið treg til því ég hélt að það væru ekki forsendur fyrir þessu. Svo prófaði ég að halda námskeið fyrir 7 til 9 ára stelpur og hef undanfarið ár verið að þróa þetta kennsluefni sem ég setti í bókina. Ég er bara ótrúlega ánægð með útkomuna og held að þetta sé eitthvað sem getur virkilega haft áhrif.“

Foreldrar eru í raun markhópur Kristínar því eftirspurnin kemur frá þeim, en börnin og unglingarnir njóta góðs af.

„Ég hafði samt efasemdir um að maður gæti verið með sjálfsstyrkingu fyrir 6 til 12 ára, en svo komst ég að því að á þeim aldri þá eru krakkar ekki komnir með þroska til að setja sig almennilega í spor annarra eða sjá heiminn út frá öðrum. En þau eru eins og svampar þegar kemur að upplýsingum um sig sjálf. Þeim finnst svo gaman að pæla í sjálfum sér og í raun eru þau því mjög móttækileg fyrir þessu efni. Þeim finnst gaman að tala fallega um sig og hrósa sér.“

Allar frekari upplýsingar um foreldranámskeiðin og skráningu er að finna á Facebook-síðunni Út fyrir kassann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert