Forsetahjónin heimsækja Dalabyggð

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid fara í opinbera heimsókn …
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid fara í opinbera heimsókn í Dalabyggð í vikunni. mbl.is/Hanna

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og frú Eliza Reid munu leggja land undir fót í vikunni og halda í tveggja daga opinbera heimsókn í Dalabyggð.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands kemur fram að forsetahjónin munu heimsækja menningarstofnanir, býli, skóla og fyrirtæki í sveitarfélaginu þessa tvo daga og boðið verður til Fjölskylduhátíðar í Dalabúð í Búðardal síðdegis á fimmtudaginn.

Heimsóknin hefst á miðvikudag og verður fyrsti viðkomustaður forsetahjónanna Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellsendi. Þaðan liggur leiðin að Erpsstöðum þar sem hjónin munu fá kynningu á býlinu og afurðum þess. Þaðan verður ekið í Búðardal þar sem ostagerð MS verður heimsótt. Í kjölfarið verður opinn fundur forsetahjóna með sveitarstjórn og gestum hennar þar sem fjallað verður um margvísleg áform Dalabyggðar í ferðaþjónustu og uppbyggingu menningarsetra.

Á seinni heimsóknardeginum verður staldrað við á Staðarhóli í Saurbæ þar sem Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra, kynnir metnaðarfull áform um setur og starfsemi til heiðurs Sturlu Þórðarsyni sagnaritara. Þá verða bæirnir Skarð og Staðarfell einnig heimsóttir.

Þá munu forsetahjónin einnig heimsækja Auðarskóla þar sem leikskólabörn, grunnskólanemendur og nemendur úr unglingadeild munu kynna skólastarfið.

Síðdegis á fimmtudag liggur leiðina að Eiríksstöðum þar sem Sigurður Jökulsson staðarhaldari mun taka á móti forsetahjónunum. Að því loknu verðu haldið að Kvennabrekku og þar mun forsetinn afhjúpa nýtt upplýsingaskilti um Árna Magnússon, fræðimann og handritasafnara, sem þar fæddist.

Heimsókn forsetahjóna í Dalabyggð lýkur svo með fjölskylduhátíð í Dalabúð sem hefst klukkan 17 fimmtudaginn 7. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert