Styrkja rannsókn á ofbeldi gagnvart blindum konum

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands með styrkþegum. Rektor afhenti …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands með styrkþegum. Rektor afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu. Ljósmynd/ Háskóli Íslands

Rannsókn sem miðar að því að kanna reynslu blindra og sjónskertra kvenna af ofbeldi og nauðung hlaut í byrjun þessa mánaðar styrk úr Þórsteinssjóði sem veittur er hjá Háskóla Íslands (HÍ). Við sama tilefni fengu fjórir blindir og sjónskertir stúdentar við HÍ námsstyrk úr sjóðnum að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Er þetta í áttunda skipti sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum og nemur upphæð styrkjanna  samtals þremur milljónum króna. 

Námsstyrkina í ár hljóta að þessu sinni þær Ásdís Lilja Guðmundsdóttir, MS-nemi í klínískri næringarfræði, Hekla Dögg Ásmundsdóttir, MA-nemi í félagsráðgjöf, Rósa María Hjörvar, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, og Vala Ósk Ólafsdóttir, BA-nemi í félagsráðgjöf.

Þá hlaut Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir, doktorsnemi í fötlunarfræðum, styrk til rannsóknar á reynslu blindra og sjónskertra kvenna sem búa á stofnunum og sértækum búsetuúrræðum. Markmið verkefnisins, sem er hluti af doktorsrannsókn Hrafnhildar, er að kanna með hvaða hætti viðteknir starfshættir innan stofnana og sértækra búsetuúrræða tengjast nauðung og ofbeldi sem blindar og sjónskertar konur verða fyrir. Enn fremur verður rýnt í hvernig aðgengi kvennanna að stuðningi og réttindagæslu er háttað.

Megintilgangur Þórsteinssjóðs er að styrkja blinda og sjónskerta stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Enn fremur er sjóðnum ætlað að efla rannsóknir sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn og afleiðingum hennar og fjölga þannig tækifærum blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki til rannsókna í félags- og hugvísindum sem falla að tilgangi sjóðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert