Bálhvasst í Hamarsfirði og veginum lokað

Það er víða illfært á Austurlandi.
Það er víða illfært á Austurlandi. Ljósmynd/Vegagerðin

Vegagerðin hefur lokað þjóðvegi 1 í Hamarsfirði vegna veðurs. Bálhvasst er í firðinum en vindhraði fer í 48 m/s í hviðum.

Það er hálka eða snjóþekja á vegum á Austurlandi og víða él og skafrenningur á fjallvegum. Þæfingsfærð og stórhríð er á Fagradal, Þungfært og stórhríð er á Fjarðarheiði. Ófært er á Öxi og Breiðdalsheiði sem og á Vatnsskarði eystra. 

Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum á Suður- og Vesturlandi og skafrenningur á fjallvegum.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum, sumstaðar skafrenningur. Ófært er á Hrafnseyrar - og Dynjandisheiði en unnið að mokstri. Eins er ófært norður í Árneshrepp. 

Hálka eða hálkublettir eða snjóþekja er á vegum á Norður- og Norðausturlandi og víða éljagangur og skafrenningur. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Siglufjarðarvegi. Þungfært er á Hólasandi og Dettifossvegur er ófær.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert