Hefur engin áhrif á flug WOW air til Ísraels

WOW air bætti Tel Aviv í Ísrael í hóp áfangastaða …
WOW air bætti Tel Aviv í Ísrael í hóp áfangastaða í haust.

Sú ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels hefur ekki haft nein áhrif á bókanir WOW air til Ísraels. Þetta segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, en flugfélagið bætti Tel Aviv, höfuðborg Ísraels, á lista áfangastaða sinna nú í haust.

Þjóðarleiðtogar ESB og annarra ríkja hafa í dag og í gær fordæmt þessa ákvörðun Trump, sem og væntanlegan flutning sendiráðs Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem.

„Ég kannaði þetta bæði í gær og aftur núna í morgun og þetta hefur ekki nein áhrif,“ segir Svanhvít. „Þeir sem bóka flugið til Tel Aviv hjá okkur eru mestmegnis gyðingar sem búa í Bandaríkjunum eða gyðingar búsettir í Ísrael sem eru að fljúga með okkur á leið yfir hafið.“

Sjálf var hún stödd á Keflavíkurflugvelli á leið heim frá Tel Aviv þegar mbl.is náði sambandi við hana og segir allt hafa verið með kyrrum kjörum í borginni í morgun. „Maður varð ekki var við neitt,“ segir hún. „Þetta eru mótmæli á mjög afmörkuðu svæði sem hafa lítil áhrif á ferðamenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert