Konur í réttarvörslukerfinu stíga fram

156 konur sem starfa eða hafa starfað innan réttarvörslukerfisins hafa …
156 konur sem starfa eða hafa starfað innan réttarvörslukerfisins hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem þær krefjast þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreiti verði sett í forgang. Ljósmynd/verilymag.com

„Síðan fer ég á barinn til að sækja mér drykk og þá er allt í einu þessi dómari kominn fyrir aftan mig og búinn að setja hendur sínar á brjóst mér.“ Þetta er brot úr einni af 45 frásögnum kvenna í réttarvörslukerfinu. 156 konur í starfsstéttinni hafa skrifað undir yfirlýsingu gegn kynbundnu ofbeldi. 

Ég var á bar ásamt vinum þegar ég hitti dómara sem ég var málkunnug. Hann var nokkuð hress og vildi mikið spjalla, aðallega um málflutning í máli sem hann hafði séð og taldi mig hafa leyst vel úr hendi. Ég var nokkuð upp með mér yfir að dómari í svo hárri stöðu hefði svona mikið álit á mér. Síðan fer ég á barinn til að sækja mér drykk og þá er allt í einu þessi dómari kominn fyrir aftan mig og búinn að setja hendur sínar á brjóst mér. Ég tæklaði þetta eins og ég hafði lært í gegnum tíðina, með því að hlæja og segja honum að láta brjóstin á mér vera. Síðar hefur leitað á mig spurningin, ef ég þarf að flytja mál fyrir þessum dómara, væri hann þá hugsanlega vanhæfur?“

Lögreglustjóri og þingmaður á meðal þeirra sem skrifa undir

45 frá­sagnir í #met­oo-hópi kvenna sem starfa eða hafa starfað innan réttarvörslukerfisins hafa verið sendar fjölmiðlum. Auk þess hafa konurnar 156 sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær krefjast þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreiti verði sett í forgang og að allir vinnuveitendur taki ábyrgð á að uppræta vandamálið. „Kynbundið áreiti, mismunun eða ofbeldi á ekki að líðast og krefjast konur þess að á þær sé hlustað og að allir samverkamenn taki ábyrgð á því að breyta til betri vegar,“ segir í yfirlýsingunni.

Meðal kvenna sem skrifa undir eru Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og þingmaður Samfylkingarinnar.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hefur skrifað undir #metoo-yfirlýsingu kvenna …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hefur skrifað undir #metoo-yfirlýsingu kvenna í réttarvörslukerfinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sögurnar tengjast starfi kvennanna á lögmannsstofum, í dómssal, í laganámi og í löggæslustörfum, svo dæmi séu nefnd.

„Tvítug byrjaði ég í lögreglunni og hef starfað þar í tæp 40 ár. Að hugsa til baka og það sem maður lét yfir sig ganga án þess að þora að mótmæla er varla rithæft. Kynferðisleg áreitni var „daglegt brauð“ og bjó maður sig undir það, eins og hægt var, áður en mætt var á vaktina. Verst var þegar maður var skráður ein í lögreglubíl með einhverjum sem ítrekað reyndi að kyssa mann þrátt fyrir mótmæli,“ segir í einni frásögninni.

Konurnar vilja að vandinn verði viðurkenndur, annars verði engu breytt. „Hlustum á þau sem segja frá og tölum um þetta hvert við annað. Þannig vinnum við okkur saman út úr þessari meinsemd.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert