Karlar í sviðslistum og kvikmyndagerð styðja #metoo

740 karlmenn í sviðslistum og kvikmyndagerð hafa lýst yfir fullum …
740 karlmenn í sviðslistum og kvikmyndagerð hafa lýst yfir fullum stuðningi við þá kvenfrelsisbyltingu sem nú gengur undir myllumerkinu metoo.

Karlar í sviðslistum og kvikmyndagerð hafa lýst yfir stuðningi við baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem 740 karlar hafa skrifað undir þar sem þeir lýsa vilja til að vinna að bættri starfs- og félagsmenningu innan sviðslista og kvikmyndagerðar.

Í yfirlýsingunni viðurkenna karlmennirnir að kynbundið ofbeldi, valdníðsla og mismunun valdi óþolandi ástandi í starfsumhverfi listafólks og lýsa þeir samstöðu með samstarfskonum sem greint hafa frá kynferðislegu ofbeldi og áreitni.  

Nöfn þeirra sem skrifa undir fylgir ekki yfirlýsingunni en fram kemur að um er að ræða leikara, leikstjóra, leikmyndahönnuðir leikhússtjóra, tæknimenn, hljóðmenn, ljósamenn, sviðsmenn, gagnrýnendur, tónlistarmenn, kvikmyndagerðarmenn, ljósahönnuðir dagskrárgerðarmenn, leikmunaverðir sviðshöfundar leikskáld, dansarar danshöfunda, þýðendur, tæknistjórar sýningastjóra, framleiðendur, tónskáld, handritahöfunda, ráðgjafa, klippara, gripla, upptökustjóra, sviðstjóra, uppistandara, nemendur, kennara, grafíklistamenn, tónlistarstjóra, aðstoðarmenn, framkvæmdastjóra, kynningarfulltrúa, smiði, brúðuleiklistamenn, óperusöngvara, brellumeistara, hljóðhönnuði, hljómsveitarstjóra, myndbandahönnuði, dagskrárstjóra, kvikmyndatökumenn og fleiri.

Íslenskar konur úr fjölbreyttum starfsstéttum hafa stigið fram síðustu daga og vikur og greint frá reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi og áreitni í störfum sínum. Í dag klukkan 16 munu fulltrúar úr mörgum starfsstéttum lesa upp sögur sem hafa litið dagsins ljós í #metoo baráttunni.

Frétt mbl.is: Konur lesa upp #metoo-sögur í dag

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:

„Við undirritaðir karlmenn í sviðslistum og kvikmyndagerð lýsum fullum stuðningi við þá kvenfrelsisbyltingu sem nú gengur undir myllumerkinu metoo. Við lýsum vilja okkar til að vinna að bættri starfs- og félagsmenningu innan sviðslista og kvikmyndagerðar. Við viðurkennum það óþolandi ástand sem kynbundið ofbeldi, valdníðsla og mismunun veldur í starfsumhverfi okkar. Við lýsum yfir samstöðu með þeim samstarfskonum okkar sem sagt hafa sögur sínar á opinberum vettvangi af kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Um leið viljum við axla ábyrgð og vinna að því með öllum ráðum að sýnilegu og ósýnilegu valdaójafnvægi sem ríkir á milli kynjanna verði eytt. Við fordæmum kynferðisofbeldi og valdníðslu hvar sem slíkt viðgengst. Við styðjum þolendur slíks ofbeldis og viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að það eigi sér hvergi stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert