Kvartanir yfir Braga ekki „meintar“

Velferðarráðuneytið.
Velferðarráðuneytið.

Velferðarráðuneytið telur mikilvægt að koma á framfæri staðreyndum um samskipti þess og Barnaverndarstofu vegna alvarlegra athugasemda sem barnaverndarnefndir Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hafa gert við háttsemi og framgöngu forstjóra stofnunarinnar og starfsfólks hennar. Þetta gert í ljósi yfirlýsingar sem birt var á vef Barnaverndarstofu síðastliðinn föstudag. Þetta kemur fram í tilkynningu velferðarráðuneytis.

„Í yfirlýsingu Barnaverndarstofu er því haldið fram að erfiðlega hafi gengið að fá gögn málsins, ekki síst þau sem varði „meintar“ kvartanir frá barnaverndarnefndum í garð forstjóra Barnaverndarstofu. Þetta er ekki rétt. Það liggur ljóst fyrir að kvartanir hafa verið gerðar, samanber minnisblað formanns barnaverndar Reykjavíkur sem getið er um í yfirlýsingu Barnaverndarstofu og fleiri gögn sem ráðuneytið hefur látið Barnaverndarstofu í té, þar með taldar upplýsingar frá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar.“ Þetta kemur fram í tilkynningu.

Barnaverndarstofa óskaði eftir framlengdum frest vegna erfiðleika með að fá gögn málsins afhent. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér fyrir helgi og má sjá í frétt mbl.is hér fyrir neðan.  

Velferðarráðuneytið bendir á að í bréfi ráðuneytisins til Barnaverndarstofu 21. nóvember eru raktar efnislega athugasemdir og umkvartanir sem komu inn á borð ráðuneytisins. „Að mati ráðuneytisins voru þær athugasemdir efnislega skýrar og vel afmarkaðar og vandséð að Barnaverndarstofa þarfnaðist frekari gagna til að gera ráðuneytinu grein fyrir afstöðu sinni til þeirra.“

Barnaverndarstofa hefur óskað eftir að mat verði lagt á hvort skrif­stofu­stjóri fé­lagsþjón­ustu­skrif­stofu vel­ferðarráðuneyt­is­ins, sem hef­ur borið ábyrgð á meðferð máls­ins í ráðuneyt­inu, kunni að vera van­hæf­ur. Á næstu dögum mun mat um slíkt liggja fyrir, að sögn velferðarráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert