Á þriðja hundrað á slysadeild

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Alls komu 157 manns á slysadeild bráðamóttökunnar í Fossvogi til miðnættis í gær, þar af margir vegna hálkuslysa. Það sem af er þessum degi hafa yfir 80 manns komið á slysadeildina.

Þar með hafa á þriðja hundrað manns komið á slysadeildina á aðeins tveimur dögum. 

Að sögn Bryndísar Guðjónsdóttur, deildarstjóra á bráða- og göngudeild G3 hjá Landspítalanum í Fossvogi, þurfti að setja saman mörg brot í gær og fóru nokkrir í aðgerð. Sama hefur verið upp á teningnum í dag.

Víða er mikil hálka á höfuborgarsvæðinu.
Víða er mikil hálka á höfuborgarsvæðinu. mbl.is/Golli

Mikið hefur verið um úlnliðsbrot og ökklabrot og hefur fólk á öllum aldri verið að koma á slysadeildina til að láta gera að sárum sínum.

„Þetta eru mjög stórir og þungir dagar,“ segir Bryndís og nefnir að dagurinn í gær hafi verið á meðal þeirra fimm stærstu á þessu ári. Fjöldi slasaðra fór upp í 163 á einum degi í fyrr í vetur en mestur var hann í janúar þegar 190 manns þurftu að fara á slysadeildina.

Bryndís hvetur fólk til að fara varlega í hálkunni og nota mannbrodda, enda sé launhált úti.

Víða leynist hálka á stígum og götum höfuðborgarsvæðisins.
Víða leynist hálka á stígum og götum höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert