Gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Hari

Maður sem liggur undir grun um að hafa reynt að kyrkja unga konu fyrr í mánuðinum var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Grunur er um að maðurinn sé ekki sá sem hann segist vera.

Hæstiréttur staðfesti í fyrradag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í síðustu viku um að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi þangað til 3. janúar. 

Í skýrslu réttarmeinafræðings um áverka á konunni kom fram að þeir væru sambærilegir við beitingu kyrkingartaks með miklu afli, sem mögulega leiddi til meðvitundarleysis. Þá sagði þar að þar sem kyrking með höndum væri margbrotin í eðli sínu yrði að flokka aflmikla kyrkingu með höndum, eins og í þessu tilviki, sem að minnsta kosti mögulega lífshættulega.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að maðurinn liggi undir sterkum grun um að hafa veist að konunni snemma morguns 3. desember sl. á dvalarstað sínum í Reykjavík og tekið hana kyrkingartaki og þrengt þannig að öndunarvegi hennar með þeim afleiðingum að hún hafi misst meðvitund og hlotið punktablæðingar í hægra auga, eyrum og á efri og neðri vör, auk áverka á tönnum.

Maðurinn neitar sök en gögn renna stoðum undir framburð konunnar

Lögreglan kom á vettvang laust eftir kl. 05:00 að morgni 3. desember sl. og þar hafi konan tekið á móti þeim. Hafi hún verið í miklu uppnámi og tjáð lögreglu að maðurinn hafi kyrkt sig þar til hún hefði misst meðvitund. Hann gaf sig fram við lögreglu á staðnum og var handtekinn.

Samkvæmt lögreglu var tekin skýrsla af konunni í tvígang, á slysadeild og hjá lögreglu, og hafi hún þar lýst atburðum með sama hætti, þ.e. að maðurinn hafi haldið sér í kyrkingartaki þar til hún hafi misst meðvitund. Á maðurinn að hafa sagst ætla að drepa hana í sama mund og hann hafi tekið hana hálstaki.

Maðurinn neitar sök en lögreglan telur að gögn málsins renni skýrum stoðum undir framburð konunnar. Einkum áverkavottorðið og framburður vitna sem komu að konunni á vettvangi. Að sögn lögreglu er rannsókn málsins langt á veg komin og telur lögreglustjóri brotið þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Óforsvaranlegt þyki að maðurinn gangi laus þegar sterkur grunur leikur á um að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum er gefið að sök. Þyki brot hans vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að hann gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar.

Með tvö vegabréf og grunaður um að villa á sér heimildir

Þá hafi lögregla rökstuddan grun um að maðurinn sé ekki sá sem hann hafi kvaðst vera, en lögregla hafi undir höndum tvö vegabréf í hans eigu. Annað þeirra er að mati lögreglu ófalsað en staðfest hafi verið að hitt sé falsað. Maðurinn er með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli upplýsinga sem fram komi í vegabréfi en talið er að þær upplýsingar séu ekki um hann. Útlendingastofnun hefur til skoðunar að afturkalla dvalarleyfi hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert