„Þessi maður er bróðir minn“

Maðurinn var dæmdur árið 1991.
Maðurinn var dæmdur árið 1991. mbl.is/RAX

Nú hefur líklega ekki farið framhjá neinum fréttir um föðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa brotið kynferðislega á þriðju dóttur sinni.“ Þannig hefst færsla Kolbrúnar Jónsdóttur á Facebook og opið bréf til þingmanna. „Þessi maður er bróðir minn.“

Maðurinn sem um ræðir var dæmdur árið 1991 fyrir að hafa brotið gegn elstu dóttur sinni, hefur eignast fleiri börn og situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa brotið gegn tveimur dætrum sínum til viðbótar.

Fylgst með úr fjarlægð og óttast það versta

Ég og elsta dóttir hans höfum verið í sambandi við fjölmiðla sl. vikur til þess að vekja athygli á þessu máli. Í fjölmörg ár höfum við fylgst með úr fjarlægð og óttast að hann myndi misnota yngri börnin sín, eins og nú hefur komið í ljós,“ skrifar Kolbrún og bætir við að maðurinn hafi verið tilkynntur til barnaverndar á sínum tíma.

Svörin þaðan hafi verið á þá leið að á meðan ekki lægi fyrir rökstuddur grunur um misnotkun eða ofbeldi væri ekkert sem barnavernd gæti gert þar sem hann hefði tekið út sinn dóm 1991.

Kolbrún kveðst skilja það að til að minnka líkur á því að einstaklingur brjóti af sér eftir afplánun þurfi hann að eiga möguleika á að aðlagast samfélaginu á ný. „Hinsvegar, þegar um kynferðisbrot og barnagirnd er að ræða eru afleiðingar þess að einstaklingurinn brjóti af sér aftur geigvænlegar. Því er ekki hægt að setja rétt afbrotamannsins til hefðbundins lífs ofar en rétt barna til öryggis.

Fylgist með mönnum sem hafa verið dæmdir

Hún vitnar í 19. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir að börn eigi rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu, innan eða utan heimilis. Stjórnvöld skuli veita börnum sem veitt hafi verið ill meðferð og fjölskyldum þeirra stuðning.

Hún og dóttir mannsins óska eftir því við yfirvöld að settur verði verkefnahópur eða vinnureglur, reglugerðir og lög sem varða barnavernd verði athuguð með það í huga að heimildir séu til að fylgjast með mönnum sem hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot og eiga lögheimili með einstaklingum undir 18 ára aldri.

Það er svo skrýtið að leikskólar, skólar, frístundaheimili og fleiri stofnanir sem annast börn hafi heimildir til að kanna sakavottorð fólks áður en það hefur störf, en ekki er hægt að gera neinar athugasemdir við eða efast um hæfni foreldris til að annast barn á heimili sínu, þ.m.t. baða, sjá um klósettþarfir, svæfa o.s.frv., þó að foreldrið hafi áður verið dæmt fyrir að brjóta á barni. Réttur barna til öryggis þarf að vega þyngra, bæði í orði og á borði, en réttur foreldris til umgengni.“

Dóttir mannsins lýsti misnotkuninni í viðtali við Stundina í lok nóvember. „Eins og hann sagði fyr­ir dómi þá rakst hann óvart inn á mig, ob­bosí, bara vaknaði og var að gera hluti, æ æ, eins og hann réði ekki við sig. Fyr­ir vikið hefði hann farið að sofa í bux­um, til að koma í veg fyr­ir þetta,“ seg­ir Guðrún Kjartansdóttir.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert