Völd og kynlíf í ljósi #metoo

Íslensk vinnustaðamenning og í raun þjóðfélagið í heild sinni er litað af hegðun sem stjórnast af kvenfyrirlitningu. Það er erfitt að finna annað orð sem nær utan um hegðunina sem hver hópurinn af öðrum hefur stigið fram og lýst á undanförnum vikum. 

Fátt hefur náð að hrista jafn rækilega upp í samfélagi okkar og frásagnir kvenna af framkomu karla í þeirra garð undir merkjum #metoo. Stjórnmálakonur voru þær fyrstu sem tóku frásagnirnar saman hérlendis, birtu nafnlaust og gáfu tóninn um hvernig ætti að stýra umræðunni. Síðan hefur hver hópurinn á fætur öðrum birt sögur af því hvernig kynbundið áreiti og ofbeldi hefur mætt þeim í starfstengdu umhverfi.

Hlutverk karla hefur til þessa verið að gefa konum rými til að segja frá. Í myndskeiðinu sem fylgir með er hins vegar rætt um metoo-byltinguna við Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, eins stærsta vinnustaðar á landinu, Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki og stjórnarformann Siðfræðistofnunar HÍ, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. 

Vinnan fram undan

Viðbrögð karla á Alþingi við frásögnum kvenna í stjórnmálum voru þau að nær 40 þingmenn undirrituðu yfirlýsingu um að vandinn yrði tekinn föstum tökum. Steingrímur segir að fljótlega eftir áramót verði starfsdagur á Alþingi sem verði helgaður málefninu þar sem málefnið verður rætt og mönnum verði skipt upp í starfshópa þar sem viðbrögðin verða mótuð.

Á Landspítalanum er verið að vinna í gerð samfélagssáttmála sem starfsfólk kemur til með að móta að miklu leyti sjálft og Páll Matthíasson forstjóri spítalans segir að í honum felist tækifæri til að hefja lifandi umræðu til að taka á vandanum. 

Þessi vinna er í takt við þá skoðun Vilhjálms Árnasonar að ekki sé hægt að vinna bug á meininu með siðareglum einum og sér, þar sem menningin sjálf sé vandamálið. Því sé eina leiðin til bóta að gera þau siðferðilegu verðmæti sem eru í húfi lifandi í huga allra.

Völd og kynlíf 

Í ljósi atburða síðustu mánaða ætti öllum að vera ljós írónían í hugrenningum stjórnmálamannsins Franks Underwoods um kynlíf í fyrstu sjónvarpsþáttaseríunni House of Cards:

„Stórmenni sagði eitt sinn: Allt snýst um kynlíf. Nema kynlíf. Kynlíf snýst um völd,“ segir Underwood af makkíavellískri yfirvegun.

Stjórnmálamaðurinn útsmogni var að sjálfsögðu eftirminnilega leikinn af leikaranum Kevin Spacey sem hefur á síðustu vikum verið afhjúpaður sem grófur níðingur. Fjölmargir hafa stigið fram og sagt sögur af því hvernig hann misbeitti valdi sínu og stöðu sem alþjóðleg stórstjarna til að koma sínu fram.  

Staðhæfing Underwoods er í fullu samræmi við tengsl valda og kynóra sem sálfræðingur við Yale-háskóla að nafni John Bargh gerir að umfjöllunarefni í bók sinni Before you know it. Í rannsóknum á kynferðislegri áreitni kom í fyrsta lagi í ljós að menn gerðu sér sjaldnast grein fyrir að þeir hefðu gert nokkuð rangt. Enn áhugaverðari var sú tilhneiging manna sem voru líklegir til að áreita kvenfólk að sjá konur ekki í kynferðislegu ljósi fyrr en þeir voru komnir í valdastöðu gagnvart þeim. Þeir löðuðust ekki að konunum fyrr en valdahlutföllin á milli þeirra voru orðin ójöfn. Á vinnustöðum eru valdahlutföllin yfirleitt skýr og því mikilvægt að fólk átti sig á þessum anga af meininu. 

Þrátt fyrir að staða kvenna á Íslandi sé með því besta sem þekkist er langt í land með að uppræta þau viðhorf sem endurspeglast í sögunum sem hafa birst. Það er sjálfsögð krafa að konur starfi í umhverfi sem er ekki mengað af frumstæðri og fornaldarlegri karlrembu en það er nokkuð sem allir þurfa að takast á við í sameiningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert