Dæmt til að greiða 52 milljónir

Ljósmynd Vaðlaheiðargöng hf.

„Málið snýst um það að gerður var verksamningur um göngin þar sem virðisaukaskattur var innifalinn í samningsfjárhæðinni. Þegar virðisaukaskattshlutvallið var lækkað úr 25,5% í 24% þá kom upp ágreiningur á milli verktakans og verkkaupans um það hver eigi að njóta lækkunarinnar og um það hefur þessi ágreiningur snúist.“

Þetta segir Þórarinn V. Þórarinsson, lögmaður Vaðlaheiðarganga hf., í samtali við mbl.is en félagið var í morgun dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að greiða verktakafyrirtækinu Ósafli tæplega 52 milljónir króna vegna lækkunar virðisaukaskatts í ársbyrjun 2015 en deilan snýst um það hvor aðili eigi að njóta lækkunarinnar.

„Dómurinn sem gekk í dag fellur svona að stærstum hluta verktakanum í vil og sýnist byggður á því að ekki hafi verið sannað með fullnægjandi móti að verktakinn hafi hagnast vegna lækkunarinnar. Síðan er það bara viðfangsefni hvort málinu verður áfrýjað og þá hvort frekari sönnunargagna verður aflað. Það verður bara tekin ákvörðun um það á næstunni.“

Fram kom á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur að fyrirtaka í málinu færi fram í morgun en ekki dómsuppsaga. Þórarinn segir skýringuna á því vera þá að dómarinn í málinu hafi óskað eftir að fá tiltekna útreikninga frá Ósafli sem lagðir hafi verið fram í morgun. Síðan hafi þinghaldi verið frestað og dómur síðan upp kveðinn nokkru síðar.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert