Allar hafa orðið fyrir áreitni

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Ég þekki ekki eina konu sem hefur ekki sögu að segja af einhvers konar kynbundnu ofbeldi og/eða kynferðislegri áreitni,“ sagði Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar Alþingi ræddi #metoo á þingfundi.

Ég er sjálf ekki undanskilin og því miður líklega engin kona hér í þingsalnum í dag,“ bætti Albertína við. Hún benti á að 419 stjórnmálakonur hefðu sent frá sér yfirlýsingu í lok nóvember þar sem þær sögðu frá því að kynbundið ofbeldi og áreitni ætti sér stað í heimi stjórnmálanna.

Hún spurði Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra hvort einhver endurskoðun væri í gangi á íslensku lagaumhverfi til að tryggja réttindi þeirra sem tilkynna kynferðislega áreitni eða ofbeldi á vinnustað.

Er vinna hafin innan ráðuneytisins að aðgerðum til að bregðast við kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi? Hefur umfang vandans í íslensku samfélagi verið metið? Hvernig sér ráðherra fyrir sér að beita sér í almennri umræðu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi á Íslandi?“ spurði Albertína.

Sigríður Á. Andersen.
Sigríður Á. Andersen. mbl.is/Eggert

Djúpstæður vandi

Umfang vandans hefur ekki verið metið heilstætt og ég er ekki viss um að hægt sé að gera það með fullri vissu. Umræðan hefur átt sér stað og vandinn er mikill og í sumum tilfellum djúpstæður og af ýmsum toga,“ sagði Sigríður.

Hún benti á vinnu sem hefði átt sér stað í dómsmálaráðuneytinu síðastliðið ár og varðaði meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. „Aðgerðaáætlun um meðferð þessara kynferðisbrota liggur nú fyrir og ríkisstjórnin hefur samþykkt að hrinda öllum þeim aðgerðum sem þar eru kynntar í framkvæmd.“

Þingmenn sem tóku til máls í umræðunni voru sammála um að nú væri nóg komið; frásagnir kvennanna væru karlmönnum til skammar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert