Getur orðið blint í hryðjum

Veðurstofa Íslands

Spáð er allhvassri suðvestanátt í dag og á morgun með éljum á vesturhelmingi landsins og getur orðið blint í verstu éljahryðjunum, segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Allhvöss suðvestanátt verður víða um land í dag og á morgun með skúrum í fyrstu en síðar slydduél eða él á suður- og vesturhelmingi landsins en léttskýjað á norðausturfjórðungnum. Í kröftugustu éljunum síðdegis og á morgun má búast við lélegu skyggni og því ekki ákjósanlegt ferðaveður. Hiti verður um og yfir frostmarki, en kólnar niður fyrir frostmark norðantil á morgun.

Sunnanátt á föstudag og talsverð rigning sunnanlands og hlýnar talsvert en á Þorláksmessu snýst í norðaustanátt og kólnar aftur með éljum norðan- og austanlands en úrkomulítið syðra,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðvestan 13-18 en heldur hægari vindur í nótt. Aftur suðvestan 13-18 síðdegis á morgun. Skúrir í fyrstu en víða él síðar í dag og á morgun, en bjartviðri norðaustan- og austanlands. Hiti 0 til 4 stig en vægt frost norðantil á morgun.

Á miðvikudag:
Suðvestanátt, víða 13-18 m/s og éljagangur, en þurrt og bjart norðaustan- og austanlands. Hiti kringum frostmark. 

Á fimmtudag:
Allhvöss suðvestanátt og éljagangur framan af degi, en dregur úr vindi og éljum eftir hádegi. Léttskýjað austantil á landinu. Frost 0 til 5 stig. 

Á föstudag:
Allhvöss suðaustanátt og rigning eða slydda, en talsverð rigning sunnanlands. Hiti 1 til 7 stig, hlýjast syðst. 

Á laugardag (Þorláksmessa):
Norðaustlæg eða breytileg átt og líkur á snjókomu eða éljum norðantil en rigning eða slydda syðra. Vægt frost norðanlands, en hiti nálægt frostmarki með sunnantil. 

Á sunnudag (aðfangadagur jóla):
Ákveðin norðaustanátt með éljum, einkum norðan- og austanlands, en úrkomuminna sunnan- og vestantil. Frost 1 til 7 stig. 

Á mánudag (jóladagur):
Útlit fyrir norðaustanátt með éljagangi norðan- og austantil en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Frost 3 til 8 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert