Hvít jól um allt land

Jólin verða hvít.
Jólin verða hvít. mbl.is/RAX

Spár gera ráð fyrir hvítri jörð um allt land á aðfangadag. Það verður frost um allt land og snjóa mun á norðurhluta landsins en úrkomulítið verður á suðurhlutanum þegar klukkur hringja inn jólin.

„Það verður éljagangur fram eftir degi á morgun hérna vestan til en úrkomulítið austan til. Svo gengur í hlýja suðaustanátt með rigningu á föstudag og slyddu upp til fjalla,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Veðurvefur mbl.is

Eftir þetta kólnar á Þorláksmessu með éljagangi á suðvestanverðu landinu.

„Á aðfangadag gengur í norðanátt með snjókomu eða éljum á nánast öllu Norður- og Austurlandi,“ segir Elín. Væntanlega verði jörðin hvít um allt land á jólunum en það þýði þó ekki að snjókorn muni falla um allt land á aðfangadagskvöld.

„Samanlagt verður væntanlega hvít jörð á jólunum en það þýðir ekki endilega að það falli snjór alls staðar á jólunum,“ segir Elín og bætir við að færð gæti víða orðið slæm á aðfangadag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert