Ástþór þarf að greiða fyrir viðgerðina

Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsetframbjóðandi.
Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsetframbjóðandi. mbl.is/Árni Sæberg

Félag í eigu Ástþórs Magnússonar, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, þarf að greiða bílaverkstæði tæplega 800 þúsund krónur auk dráttarvaxta vegna viðgerðar sem gerð var á bifreið félagsins í nóvember fyrir tveimur árum.

Ástþór sagðist aldrei hafa beðið um viðgerðina, en starfsmaður hans hafði farið með bílinn á verkstæðið og sagt að tilboð þyrfti að berast til Ástþórs og að hann ætti að samþykkja það. Aftur á móti reyndist ómögulegt að ná í Ástþór sem var á þessum tíma í Rússlandi, en starfsmaðurinn náði heldur ekki í hann fyrr en mikið seinna.

Starfsmenn verkstæðisins sögðu að þeir hefðu ekki hafið viðgerð nema að höfðu samráði við starfsmann Ástþórs, en ómögulegt hafi verið að ná í Ástþór sjálfan. Sagði starfsmaðurinn að hann hafi nefnt viðgerðina við Ástþór sem hafi beðið starfsmanninn að láta framkvæma hana. Leitaði hann til tveggja verkstæða sem Ástþór hafði áður átt í viðskiptum við, en neituðu þau bæði að eiga viðskipti við Ástþór vegna fyrri samskipta við hann.

Þrátt fyrir að starfsmaðurinn hafi fyrir dómi sagt að Ástþór hafi beðið hann um að láta laga bifreiðina undirritaði hann þrjár yfirlýsingar síðar meir. Þar kom meðal annars fram að hann hafi aldrei verið skráður starfsmaður félags Ástþórs og ekki heldur haft umboð til að samþykkja viðgerðir. Sagði starfsmaðurinn að Ástþór hefði útbúið allar yfirlýsingarnar og í einu tilfelli pressað mjög á sig að skrifa undir. Þá hafi ein yfirlýsingin verið með svo smáu letri að hann gat ekki lesið hana alla.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að óumdeilt sé að maðurinn hafi starfað fyrir Ástþór. Ástþór hafi óskað eftir að því að starfsmaðurinn kæmi bifreiðinni í gegnum skoðun og hluti af því var að láta gera við hana svo hún stæðist aðalskoðun. Lítur dómurinn því svo á að maðurinn hafi haft umboð Ástþórs til að láta gera við bifreiðina.

Ástþór fór fram á að reikningur vegna viðgerðarinnar yrði einnig lækkaður og að fá skaðabætur þar sem mygla hafi myndast í bílnum þegar hann var í geymslu verkstæðisins. Hafnaði dómurinn þessu öllu.

Þess í stað var Ástþór dæmdur til að greiða verkstæðinu tæplega 800 þúsund krónur auk dráttarvaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert