Þokkalegasta áramótaveður

Það viðrar vel til flugeldaskota um áramótin.
Það viðrar vel til flugeldaskota um áramótin. mbl.is/Árni Sæberg

Þokkalegasta áramótaveður verður víðast hvar á landinu, að sögn veðurfræðings á Veðurstofunni. Frost hefur verið á öllu landinu síðustu daga og verður áfram fram yfir áramót. 

Að sögn veðurfræðings verður norðaustlæg átt um allt land á gamlársdag og vindhraði á bilinu 5-13 metrar á sekúndu, en þó hægari norðaustanlands. Um kvöldið tekur að lægja og er búist við blankalogni í Reykjavík er nýja árið gengur í garð.

Úrkomulaust verður víðast hvar en þó má búast við smá éljagangi fyrir norðan.

Veðurskilyrði verða vart betri til flugeldaspreninga, en þó er sá galli á gjöf Njarðar að búast má við mengunarskýi yfir helstu þéttbýlisstöðum á nýársdag vegna lognsins.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert