Sex heppnir miðaeigendur fengu 1 milljón króna í vinning í útdrætti kvöldsins hjá Happdrætti Háskólans. Þá fengu sautján miðaeigendur 500 þúsund krónur í vinning og þrír 200 þúsund krónur hver.
„Það er óhætt að segja að árið fari vel af stað því heppnum Íslendingum fjölgaði um rúmlega 3.400 í útdrætti kvöldsins,“ segir Úlfar Gauti Haraldsson, rekstrarstjóri flokkahappdrættis Happdrættis Háskóla Íslands. Heildarupphæð vinninga í útdrætti kvöldsins nam rúmum 98 milljónum og skiptist á 3.421 heppinn miðaeiganda.
Milljónaveltan, sem var tíu milljónir króna, gekk ekki út og bætist því við veltu næsta mánaðar sem verður þá 20 milljónir króna.