Söfnun fyrir fjölskylduna í Mosfellsbæ

Allt sem fjölskyldan átti gjöreyðilagðist í eldsvoðanum.
Allt sem fjölskyldan átti gjöreyðilagðist í eldsvoðanum. mbl.is/Hanna

Hafin er söfnun til að koma fjölskyldunni sem missti allt sitt í eldsvoða í Mosfellsbæ í fyrrinótt til hjálpar. Þegar hafa vegleg framlög borist en stærsti vandinn er húsnæðisleysið að svo stöddu.

Það er Nanna Vilhelmsdóttir sem hafði frumkvæðið að söfnuninni en hún býr í nágrenni við húsið sem brann. Í færslu sem hún birti í facebookhópi Mosfellinga er biðlað til fólks um að aðstoða fjölskylduna með ýmsum hætti. Hún verður í Rauða krossinum í Mosfellsbæ dag og getur fólk komið þangað með framlög sín.

Færsla Nönnu:

Sæl kæru Mosfellingar. Þið hafið væntanlega öll heyrt af hinum hræðilega bruna í Reykjahverfinu. Hér er allslaus fjölskylda í sárum og margir vilja aðstoða. Ég ræddi við bæjarstarfsmann og fulltrúa Rauða krossins. Niðurstaðan er þessi: 

Það sem mest liggur á núna er að finna húsnæði fyrir fjölskylduna, til bráðabirgða a.m.k. þar sem þau eru aðeins með aðstöðu á gistiheimili núna. Þó ekki væri nema í 1-3 mánuði meðan málin skýrast.
Föt vantar á alla, ég er búin að fá vilyrði fyrir úlpum á fullorðna fólkið, en skó vantar sem og húfur og vettlinga. Skóstærðirnar eru: 44/43/ karlmenn 40 kona/33-34 stúlka /25-26 drengur. 
Föt á börnin: 134 stúlka, 104-110 drengur. 
Leikföng, ekki fyrirferðarmikil í bili. Sængur, koddar, sængurföt, handklæði.

Matarkort í Bónus eða Krónuna kæmu sér vel, þau þurfa sjálf að útvega mat og geta þá verslað eftir hentugleikum. Einnig er lyfjakostnaður talsverður hjá fjölskyldunni, ef einhverjir sjá sér fært að styrkja þau, það er hægt að fá rafræn gjafakort í bönkunum sem nýtast í slíkt, einnig mætti koma fjárframlagi á þjónustuborð Mosfellsbæjar svo hægt sé að leysa út lyf. Berglind hjá fjölskyldusviði bæjarins mun sjá um það. Það er ekki kominn söfnunarreikningur, svo önnur fjárframlög eru best í formi korta um sinn. 

Stærra innbú munu þau þurfa en ekki er hægt að taka við slíku fyrr en húsnæðismálin leysast, ef fólk getur boðið slíkt fram væri gott að halda því til haga þar til húsnæði finnst.
Ég verð í húsnæðinu sem Rauði krossinn Mosfellsbæ á í Þverholti í dag milli 1 og 4 til að taka við framlögum og mun halda utan um þessa söfnun hér í bænum.

Vinsamlegast hafið samband við mig í dag, ég geri lista yfir þá hluti sem berast og get þá látið vita hvað er komið og hvað vantar. Gsm-númerið mitt er: 863-3622. Það gleður mig innilega að sjá hversu magnað þetta litla samfélag okkar er þegar á reynir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert