„Þetta var alveg á ystu nöf“

Slökkviliðsmenn ganga úr skugga um að eldur gjósi ekki upp …
Slökkviliðsmenn ganga úr skugga um að eldur gjósi ekki upp í rústum hússins sem gjöreyðilagðist í Mosfellsbæ. mbl.is/Hallur Már

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að slökkviliðið hafi ráðið naumlega við að sinna eldsvoðunum tveimur sem komu upp með skömmu millibili aðfararnótt þriðjudags í Bláhömrum í Grafarvogi og Mosfellsbæ. Dæmi um það sé að nota þurfti einkabíla til að flytja fólk á sjúkrahús, þar á meðal lögreglubíla.

„Þetta tókst en þetta var alveg á ystu nöf,“ segir Jón Viðar, spurður hvort mannskapurinn hafi verið nægur til að sinna eldsvoðunum, og nefnir að mikið hafi einnig verið um sjúkraflutninga á sama tíma. 

„Mitt mat er að mínir menn brugðust afskaplega skynsamlega við þessum aðstæðum og forgangsröðuðu hárrétt,“ bætir hann við um aðgerðir slökkviliðsins.

„Það er alltaf spurningin hvernig með bregðast við þessum erfiðu aðstæðum. Það reynir rosalega mikið á yfirmennina. Hlutir eru mjög reglulega að koma inn á borð manna þar sem þarf að forgangsraða en þetta er mjög öfgafullt dæmi.“

Talið er að eldurinn í fjölbýlishúsinu í Grafarvogi hafi kviknað …
Talið er að eldurinn í fjölbýlishúsinu í Grafarvogi hafi kviknað í stofunni. Ljósmynd/Árni Árnason

Of hröð atburðarrás fyrir aðstoð

Jón Viðar segir að þegar menn eru með yfirdrifið af mannskap sé hægt að senda menn í öll verkefni án þess að forgangsraða en annars þurfi að taka stífa forgangsröðun þegar menn velti fyrir sér „knöppum mannskap“ í þau verkefni sem séu á borðinu.

Tugir slökkviliðsmanna tóku þátt í slökkvistarfinu og meðal annars voru menn kallaðir til starfa af frívöktum. Spurður hvort til greina hafi komið að hafa samband við slökkvilið í nærliggjandi sveitarfélögum segir hann að atburðarrásin hafi verið of hröð til þess, enda hafi svokallaður „lífsbjörgunarfasi“ verið í gangi.

Fjórir nýir dælubílar

Spurður hvort tækjakostur slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sé nægur segir hann að búið sé að fjárfesta í fjórum nýjum dælubílum og því muni slökkviliðið styrkjast allverulega á komandi misserum.

Eldur logar í einbýlishúsinu í Mosfellsbæ.
Eldur logar í einbýlishúsinu í Mosfellsbæ. Ljósmyndari Sumarliði Gunnar Halldórsson

Íbúum í Bláhömrum boðið í heimsókn

Jón Viðar nefnir einnig að slökkviliðið hafi haft samband við húsfélagið í Bláhömrum og boðið íbúum fjölbýlishússins að koma í heimsókn til slökkviliðsins og ræða við það. Farið verði yfir aðgerðirnar og líðan íbúanna rædd. „Það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur að heyra þeirra sjónarmið eftir á. Eins fyrir okkur að miðla til þeirra.“

Mikilvægt að halda kyrru fyrir

Hann segir afar mikilvægt ef eldur kviknar í íbúð fjölbýlishúss að íbúar í nærliggjandi íbúðum yfirgefi þær ekki fyrr en þeir fái fyrirmæli um annað.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.

„Það er dálítið sérstakt að hugsa til þess að það sé betra að vera inni því mönnum er eðlislægt að flýja hættuna en þarna ertu inni á öruggum stað,“ greinir hann frá og nefnir nýlegt dæmi í Stokkhólmi þegar eldur kom upp í fjölbýlishúsi í Svíþjóð.

Ung kona hafi farið út úr íbúð sinni með börnin sín eftir að eldur kom upp í íbúðinni fyrir neðan. Hún hafi villst í reyknum og farið inn í rými sem var að brenna og þau hafi öll látist. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert