Hellisheiði og Þrengslum lokað vegna veðurs

Veginum um Hellisheiði og Þrengsli hefur verið lokað vegna veðurs.
Veginum um Hellisheiði og Þrengsli hefur verið lokað vegna veðurs. mbl.is/Rax

Búið er að loka alveg Hellisheiði og veginum um Þrengslin vegna veðurs. Þá eru Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði einnig lokaðar. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Hellisheiði hafði verið lokað fyrr í dag vegna umferðaróhapps en nú er það veðrið sem hamlar umferð um veginn.

Þá kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi að ekkert ferðveður sé á Suðurlandi og í uppsveitum vegna lélegs skyggnis, en þar gengur á með talsverðum éljum. Þetta á einnig við um þá vegi sem ekki eru skráðir lokaðir hjá Vegagerðinni, að kemur fram í tilkynningunni.

Þá er einnig búið að loka veginum um Öxnadalsheiði eftir að hann hafði verið opinn í skamma stund. Verður staðan þar skoðuð aftur í fyrramálið.

Það er hálka eða snjóþekja á velflestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi, víðast hvar ofankoma og sums staðar strekkingsvindur. Þá er versnandi veður á Reykjanesbraut.

Ófært er á Kjósarskarði og eins á Krýsuvíkurvegi.

Snjóþekja er á flestum vegum á Vesturlandi og skafrenningur og mjög hvasst og oft á tíðum ansi blint. 

Á Vestfjörðum er búið að opna flesta vegi en sums staðar er þó þæfingsfærð s.s. þar sem aðeins er búið að opna einbreitt. Klettsháls er enn ófær en moksturstæki á næsta leiti.

Hálka og snjóþekja er á Norðurlandi. Fært er út fyrir Tröllaskaga en þar er þó ansi hvasst og byljótt.

Það er hálka yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og á Austurlandi er hálka m.a. á Fjarðarheiði, Fagradal, Öxi og Breiðdalsheiði.

Með suðausturströndinni er autt frá Djúpavogi suður í Öræfi en hálkublettir eða hálka þar fyrir vestan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka