Óskaði eftir upplýsingum frá ráðherra

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Umboðsmaður Alþingis ritaði bréf til dómsmálaráðherra 8. janúar þar sem hann óskaði eftir upplýsingum vegna skipunar hennar á dómurum í Landsrétti. Þetta gerði hann til að undirbúa sig fyrir fund sem hann var boðaður á hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis 18. janúar.  

Á þeim tíma vissi hann ekki hvert yrði viðfangsefni fundarins eða til hvers yrði ætlast af honum.

Meðal annars óskaði hann eftir upplýsingum um ráðgjafa ráðherra, bæði innan og utan Stjórnarráðsins.

Fyrst var greint frá því að hann hafi óskað eftir upplýsingunum í kvöldfréttum RÚV. 

„Ég taldi rétt að hafa upplýsingar um tiltekin viðbótaratriði umfram það sem fram kemur í dómi Hæstaréttar vegna málsins og þess vegna óskaði ég eftir þessum upplýsingum frá ráðuneytinu. Þetta gerði ég bara til þess að undirbúa mig fyrir fundinn og ef eftir atvikum hvort það væri tilefni til að taka til athugunar eitthvað að eigin frumkvæði,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, í samtali við mbl.is.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Á fundinum kom fram að nefndin hefði einnig beðið um gögn málsins frá ráðuneytinu. Tryggvi nefnir að sú starfsregla gildi að umboðsmaður fjalli ekki um sömu atriði og Alþingi er sjálft að athuga og því liggi það fyrir að hann muni ekkert frekar huga að þessu máli nema þá eftir að nefndin hefur afmarkað verkefni sitt.

Hann bendir á að hann hafi vísað frá þeim sem kvörtuðu til hans úr hópi umsækjenda um starf dómara við Landsrétt vegna þess að hann fjalli ekki um þau atriði sem komi til umfjöllunar hjá Alþingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka