Strandaglópur í Köben eftir handtöku

Jón Valur Smárason.
Jón Valur Smárason. Ljósmynd/Aðsend

Jón Valur Smárason framkvæmdastjóri var handtekinn á Kastrup-flugvelli fyrr í mánuðinum vegna tilhæfulausrar ásökunar starfsmanns á vellinum. Varð það til þess að hann missti af flugi sínu með Wow Air til Íslands og varð að dvelja aukanótt í Kaupmannahöfn.

Jón hefur ítrekað reynt að ná sambandi við flugfélagið án árangurs. Hann segist hafa sent flugfélaginu póst strax við heimkomuna, en ekkert svar fengið þrátt fyrir ítrekanir. „Eftir tvær vikur ákvað ég að setja þetta á Facebook. Ég talaði við lögmann og spurði hann hvort honum þætti það ekki rétt, og honum fannst það rétt.“

Jón setti því færslu á Facebook í gærmorgun þar sem hann lýsir reynslu sinni af flugvellinum og birtir bréf sem hann sendi Wow Air við heimkomuna. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.

 „Fjórum tímum seinna fékk ég loksins lítinn póst frá Wow Air þar sem þau svara þessu bréfi sem ég var búinn að tvíítreka. Þau þakka mér kærlega fyrir að senda þetta bréf og taka fram að þau séu búin að óska eftir upplýsingum frá sínum samstarfsaðilum erlendis og verði í sambandi við mig þegar þau hafi frekari upplýsingar,“ segir Jón.

„Ég tek það fram að ég hef ekkert á móti þessu flugfélagi. Þeir hafa gert ýmislegt gott fyrir þjóðarbúið, held ég. En það verður náttúrlega að svara og sinna því sem upp kemur,“ segir Jón.

9.900 króna gjald vegna hjólanna

Forsaga málsins er sú að 7. mars átti Jón flug frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur en hann hafði millilent í Kaupmannahöfn á leið sinni frá Rúmeníu, þar sem hann býr.

Við hliðið spratt upp ágreiningur milli Jóns og starfsmanns flugvallarins um hvort handfarangurstaskan hans væri innan stærðartakmarka. Flugvallarstarfsmaðurinn bað Jón að setja töskuna í þartilgert hólf til að mæla stærðina, sem hann gerði, og passaði taskan í hólfið. Hélt Jón þá að málum væri lokið, en konan gaf sig ekki og ítrekaði að taskan væri of stór því hluti hjólanna stóð upp úr.

Frá Kastrup-flugvelli.
Frá Kastrup-flugvelli. AFP

Á endanum gaf Jón eftir og samþykkti að greiða aukagjald fyrir töskuna, 9.900 krónur. Hann segist hafa tekið upp símann til að taka mynd af konunni, sem hann ætlaði að láta fylgja kvörtun til flugfélagsins. Konan hafi þá umsvifalaust rifið af honum símann. Jón var að sama skapi fljótur að hrifsa símann til baka, en þá kom að honum flugvallarstarfsmaður sem tjáði honum að hann færi ekki með þessu flugi og skyldi koma sér í burtu.

Öryggismyndavélarnar til bjargar

Jón segist þá hafa farið í að leita sér að öðru flugi heim, en hann hafi ekki fyrr verið kominn út úr flugstöðinni en öryggisverðir umkringja hann og tilkynna honum að hann hafi verið kærður fyrir líkamsárás. Lögreglan sé á leiðinni. Um 45 mínútum síðar kom lögreglan á svæðið og fór með hann upp á lögreglustöð þar sem hann var yfirheyrður.

„Á leiðinni á stöðina hringir konan mín. Ég spyr hvort ég megi svara, og þeir segja mér að það sé í lagi ef ég tali ensku. Svo ég svara konunni minni á ensku og segi henni að ég hafi verið handtekinn,“ segir Jón Valur og hlær.

Jón segir ljóst að lögregluþjónarnir hafi ekki trúað frásögn hans af samskiptum sínum við flugvallarstarfsmanninn og hvernig þau rifust um símann. Eftir að hafa kíkt í öryggismyndavélar flugvallarins kom þó á daginn að frásögnin var rétt og var Jón þá látinn laus.

Vél Wow Air
Vél Wow Air Herman Wouters

„Ef ekki hefði verið fyrir það að svæðið er vídeó vaktað þá væri ég eflaust núna með kæru um líkamsárás á herðunum, stimplaður flugdólgur og hugsanlega búið að takmarka aðgang minn að flugi,“ segir Jón og bætir við að slíkt hefði miklar afleiðingar fyrir hann enda búi hann erlendis og fljúgi mikið

„Ég er í raun ekki að setja út á flugfélagið eða neitt. Ég veit ekki hverjir eru undirverktakar hjá þeim. En ég versla auðvitað bara við flugfélagið og því eðlilegt að þetta fari í gegnum það.“ Hann segir eðlilegt að flugfélagið greiði fyrir hann flugferðina heim, sem hann varð að taka daginn eftir, sem og dvalarkostnað yfir nóttina, hið minnsta. „Ég var ekkert að fara fram á mikið. Aðallega bara að ná sambandi við þau, fá smá velvilja og kannski afsökunarbeiðni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert