Aðgerðirnar eru skiljanlegar

Íbúar í Damaskus komu saman á Umayyad-torgi þar í borg …
Íbúar í Damaskus komu saman á Umayyad-torgi þar í borg í morgun og mótmæltu aðgerðum Breta, Bandaríkjamanna og Frakka í nótt og lýstu jafnframt yfir stuðningi við Bahar al-Assad Sýrlandsforseta. AFP

„Aðgerðir herja Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands eru skiljanlegar í ljósi aðgerðaleysis Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um árás vesturveldanna á Sýrland í nótt.

„Öryggisráðið greip ekki til viðeigandi ráðstafana vegna þess að Rússar beittu enn og aftur neitunarvaldi sínu,“ segir Guðlaugur Þór.

Guðlaugur Þór og starfsfólk utanríkisráðuneytisins hafa fylgst grannt með viðbrögðum heimsbyggðarinnar við hernaðaraðgerðunum í morgun. Spurður hvað hann lesi í þau viðbrögð segir hann að markmið flestra þeirra sé augljóslega það að notkun efnavopna verði ekki liðin.

Notkun efnavopna ekki boðleg

„Stjórnarherinn í Sýrlandi hefur margoft beitt efnavopnum gegn óbreyttum borgurum, nú síðast í Douma. Þessar árásir í nótt, sem eru mjög afmarkaðar, og beinast gegn stöðum þar sem slík vopn eru geymd, sýna að það hefur afleiðingar í för með sér þegar efnavopn eru notuð. Það er skiljanlegt að það sé gert, efnavopn eru bönnuð af ástæðu,“ segir Guðlaugur Þór.

„Nægar hafa hörmungarnar verið í Sýrlandi, þar sem þetta stríð hefur staðið í rúm sjö ár. Tala látinna í þessu stríði samsvarar fjölda Íslendinga og milljónir hafa flúið landið. Það ætti ekki að þurfa að útskýra fyrir neinum að það er ekki boðlegt, ofan á allt saman í þessu ömurlega stríði, að nota efnavopn.“

Guðlaugur Þór segist ekki hafa verið í beinum samskiptum við utanríkisráðherra annarra ríkja vegna málsins það sem af er degi. „En það gerist gjarnan í aðstæðum sem þessum, sérstaklega eru það þá samskipti við ráðherra á hinum Norðurlöndunum.“

Í færslu Guðlaugs Þórs á Twitter segir m.a. að leita þurfi pólitískrar lausnar á ástandi mála í Sýrlandi. Spurður hver hún gæti verið segir hann að fyrst og fremst verði að horfa til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. „Það er sá vettvangur sem við höfum lagt okkar mesta traust á. En það sem hefur komið í veg fyrir aðgerðir er að Rússar hafa beitt neitunarvaldi sínu þar. Á meðan svo er, getur Öryggisráðið ekki náð saman um aðgerðir.“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Bragi Þór Jósefsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert