Ópíóíðafíklum fjölgað um 68%

Fjöldi sjúklinga í neyslu sterkra ópíóíða hefur fjölgað um 68% …
Fjöldi sjúklinga í neyslu sterkra ópíóíða hefur fjölgað um 68% á tveimur árum. mbl.is/Golli

Skráðum sjúklingum á sjúkrahúsinu Vogi í neyslu sterkra ópíóíða hefur fjölgað um 68% frá árinu 2015. Á sama tímabili hefur ótímabærum dauðsföllum úr sjúklingahópi SÁÁ fjölgað meðal einstaklinga yngri en 40 ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum upplýsingum úr gagnagrunni sjúkrahússins sem voru birtar á fræðslufundi SÁÁ í gærkvöldi.

„Það sést örlítil aukning meðal þeirra sjúklinga sem sækja í vægari efnin. Aftur á móti sést greinilega aukning á þessum sterku ópíóíðum sem hægt er að sprauta í æð. Þá erum við að tala um þessi efni sem eru á allra vörum oxycodin og contalgin. Veruleg aukning hefur verið síðustu tvö árin og þess vegna er verið að ræða um þetta“ segir Þórarinn Tyrfingsson, læknir, í samtali við mbl.is

„Í okkar gagnagrunni sjáum við einnig að dauðsföll þeirra sem eru undir fertugu eru mjög mörg síðustu tvö árin. Það þarf alveg að leita til aldamótana til þess að finna  sambærilega tölu, þegar contalgin sveiflan var sem mest“ segir Þórarinn.

Á tímabilinu 2015-2017 fjölguðu sjúklingum vegna neyslu á sterkum ópíóíðum um 68,5% á Sjúkrahúsinu Vogi. Árið 2015 voru skráðir 111 sjúklingar vegna neyslu á sterkum ópíóíðum, en þessi fjöldi hækkaði í 187 árið 2017. Ópíóíðar eru oft kölluð morfínskyld lyf en meðal þeirra eru að finna margar tegundir lyfja sem geta verið á mismunandi styrkleikastigi.

Kannanir skólana segja fátt

Spurður um þann árangur sem gefin er til kynna í neyslukönnunum skólana segir Þórarinn Þær ekki vísbendingar um hvað sé í gangi. „Þátttakan hefur minnkað í grunnskólunum sem segir okkur að þar sé hópur sem tekur ekki þátt, mætti segja að þar sé að finna einhvern jaðarhóp. Svo fara þau ekki í neyslu svona ung heldur svona um 16-17 ára, sem sagt eftir grunnskóla.“

Þórarinn Tyrfingsson, læknir, spyr hvers vegna oxycodone sé á markaði.
Þórarinn Tyrfingsson, læknir, spyr hvers vegna oxycodone sé á markaði. Ljósmynd/SÁÁ

Hann segir „kannanir á framhaldsskólastigi ná bara til eins þriðja úr aldurshópnum og svo eru margir utan framhaldsskóla, ekki síst margir sem hætta. Þessar kannanir taka bara fyrir betri hópinn og þar kemur aldrei fram mikil neysla. Grunnskólakannanirnar eru ágætar til síns brúks, en það má ekki heimfæra þær yfir á fyrstu tvö árin eftir að grunnskólagöngu lýkur.“

Færri nýir ungir sjúklingar hafa þó orðið á síðustu árum og eru minni líkur á að verða fíkill yngri en 25 ára en áður var að sögn Þórarins. „Vandinn er þó ekki endilega skárri, því það er komin ný hlið á vandanum“ bætir hann við.

Fá ekki lyfin með ávísun lækna

Þórarinn telur ekki algengt að sjúklingar leiðist í neyslu ópíóíða vegna lyfja sem tekin eru vegna læknisfræðilegra ástæðna. „Þeir byrja í örvandi efnum og fara svo yfir í þetta“ 

„Við þurfum að ræða þessa hluti á yfirvegaðan hátt og fara svo yfir í kerfið sem tekur á þessu. Kerfið er gríðarlega sterkt á sumum pörtum, en síðan eru veikleikar sem þarf að laga“ segir Þórarinn aðspurður um hvernig skuli bregðast við þessari þróun.

Samkvæmt Þórarni ávísa læknar ekki þessi lyf á þennan hóp fíkla og segir þetta hafa breyst mikið. Enn fremur hefur ekki verið vísað á fíkla sem hafa látist vegna yfirskammts og að þeir fá lyfin annarstaðar.

„Skoða þarf dreifingu, lyfjaförgun og hvernig lyfseðlar eru endurnýjaðir. Það þarf að skoða þá þætti. Það þarf líka að skoða af hverju lyf eru sett á markaðinn og rökstyðja það vel. Af hverju er til dæmis oxycodone á markaði?“ spyr Þórarinn og segir enga læknisfræðilega ástæðu fyrir því.

Upphaflega var Þórarinn Tyrfingsson titlaður yfirlæknir á Vogi. Hið rétta er að Valgerður Rúnarsdóttir er tekin við og hefur fréttinn verið leiðrétt í samræmi við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert