Sigmundur spurði Bjarna um borgarlínu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mun ráðherra fjármagna kosningaloforð Samfylkingar í Reykjavík?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og beindi orðum sínum til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

Meðal kosningaloforða Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna sveitarstjórnarkosninga í lok maí er að fá borgarlínu og að Miklabraut verði sett í stokk. Sigmundur sagði að það væri ljóst að ríkið þyrfti að koma að þeirri fjármögnun, enda kostnaðarsöm verkefni bæði tvö.

Bjarni sagði að það væri skýrt í lögum þegar sveitarstjórnir færu fram á kosti í samgöngumálum sem væru umfram það sem Vegagerðin telur nauðsynlegt til að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt í samgöngubótum að þá þurfi sveitarfélög að bæta því fjármagni við sem á vantar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sagði að ekki væri útilokað að sérstakt framlag þurfi að koma frá borginni vegna stokkalausnarinnar og sama ætti við um borgarlínu.

Borgarlína ekki eingöngu fjármögnuð af ríkinu

Á þeim fundum sem ég hef setið um borgarlínu hefur það verið skýrt að verkefnið verði ekki alveg að fullu fjármagnað af ríkinu,“ sagði Bjarni. Hann sagði að ríkinu væri þröngt sniðinn stakkur eins og sjá megi í fjármálaáætlun. 

Sigmundur sagði að það hefði vakið athygli hversu lítið hefði verið sett í samgöngumál í fjármálaáætlun, vegna þess að talað væri um stórsókn í samgöngumálum. 

„Ég skildi svar ráðherra sem svo að það sé ekki svigrúm hjá ríkinu til að fjármagna þess verkefni. Borgaryfirvöld geta ekki vænst þess að fá fjármagn í borgarlínu eða að setja Miklubraut í stokk úr ríkissjóði. Ef mér skjátlast með þetta bið ég ráðherra að leiðrétta það,“ sagði Sigmundur.

Bjarni sagði að fjórðungsaukning til vegamála væri mikið átak, hvernig sem menn vilji líta á það. „Það mun ekki duga til að standa undir tugmilljarða verkefni eins og borgarlínan er. Borgarlínuhugmyndina finnst mér að þurfi að skilgreina miklu betur. Hún er allt frá því að vera tæplega hundrað milljarða framkvæmd yfir í það einfaldlega að vera greiðari almenningssamgöngur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert